Innlent

Pétur Tyrfings­son telur Víði Sig­rúnar­son geðlækni á hálum ís með á­sökunum á hendur Þór­arni

Jakob Bjarnar skrifar
Meðal þeirra sem fær að finna fyrir beittum penna Péturs er Víðir Sigrúnarson geðlæknir.
Meðal þeirra sem fær að finna fyrir beittum penna Péturs er Víðir Sigrúnarson geðlæknir.

Pétur Tyrfingsson hefur skrifað mikla grein sem hann birtir á Vísi þar sem hann fjallar vítt og breitt um formannsslag í SÁÁ; rangfærslur sem og vafasaman og gífuryrtan málflutning sem þar hefur verið hafður í frammi að hans mati og beinist gegn Þórarni Tyrfingssyni fyrrverandi yfirlækni SÁÁ.

Píslarvætti sálfræðinganna

Á morgun kemur stjórn 48 manna stjórn SÁÁ saman og kýs formann. Tveir eru í framboði: Einar Hermannsson og Þórarinn Tyrfingsson. Pétur er bróðir Þórarins en segir það ekki hafa neitt með þau sjónarmið sem hann vilji dragi fram. Málið snúist um annað og meira.

Pétur er meðal annars sálfræðingur á geðsviði Landspítalans en eitt af því sem hefur valdið verulegri ólgu eru uppsagnir sálfræðinga innan vébanda SÁÁ. Pétur var formaður Sálfræðingafélags Íslands 2007-2013. „Sálfræðingum er stillt hér upp eins og píslarvottum í þessari deilu og rennur það mér til rifja eins og gefur að skilja,“ segir Pétur í grein sinni.

Pétur fer um víðan völl, hann gagnrýnir afstöðu Einars og segir hana mótsagnakennda. Þá beinir hann sjónum sínum að Víði Sigrúnarsyni geðlækni sem Pétur segir hafa haft í frammi gífuryrði um Þórarinn, gamla yfirlækninn Þórarinn Tyrfingsson, sem hann hafi aldrei unnið með og viti nákvæmlega ekkert um.

Alvarlegar ásakanir

„Tal hans um yfirgang og einelti eru því ekki annað en bergmál. Hitt er alvarlegra þegar hann segir frá þeim ótta sínum að meðferðin hverfi þrjá áratugi aftur í tímann verði gamli yfirlæknirinn dubbaður upp í formennsku. Með öðrum orðum til ársins 1990. Hann telur sér trú um að gamli yfirlæknirinn sé kominn á vettvang til að brjóta allt niður sem hann hafði sjálfur forystu um að byggja upp í heilan aldarfjórðung. Ekki ber þetta vott um djúpt innsæi í sálarlíf og hvatir mannfólksins,“ skrifar Pétur.

Hann bætir því við að Víðir telji sér trú um að formaður SÁÁ geti hlutast til um fagleg málefni á sjúkrastofnunum SÁÁ. Það telur Pétur ekki vísbendingu um þekkingu á valdastiga og boðleiðum hjá SÁÁ.

„Hitt er sínu alvarlegra þegar einn læknir sakar annan um það vísvitandi að vilja brjóta niður uppbyggingu til 25 ára. Þetta er ákæra um að annar læknir vilji endurreisa gömul og úrelt vinnubrögð ef ekki fúsk. Maður sem áttar sig ekki á því hve alvarleg ásökun þetta er hefur lítið lært um siðfræði heilbrigðisstétta almennt og lækna sérstaklega. Verður hann að teljast ómerkur orða sinna fyrir vikið,“ segir Pétur meðal annars í grein sinni.


Tengdar fréttir

Átök og erjur í SÁÁ

Pétur Tyrfingsson fer hér ítarlega yfir þau mál, þau ágreiningsefni og misskilning, sem undir eru í átökum innan SÁÁ að hans mati.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×