Innlent

Húsið sem brann hefur ítrekað ratað í fjölmiðla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi brunans í dag.
Frá vettvangi brunans í dag. Vísir/vilhelm

Húsið að Bræðraborgarstíg 1 sem brann síðdegis í dag hefur ítrekað ratað í fjölmiðla í gegnum tíðina. Árið 2015 lýsti fyrrverandi leigjandi því sem „óhæfum mannabústað“ í viðtali við Stundina og þá var ungbarnaleikskóli þar til húsa fyrir nokkrum árum, sem lokað var eftir ásakanir um ofbeldi á hendur stjórnendum.

Eldurinn kviknaði í húsinu á fjórða tímanum og allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út. Húsið er gjörónýtt og voru fjórir fluttir á slysadeild. Samkvæmt frásögnum sjónarvotta voru jafnframt nokkrir handteknir á vettvangi.

„Með öllu óhæfur mannabústaður“

Stundin ræddi við Jóhannes Ingibjartsson, þá fyrrverandi leigjanda í húsinu, árið 2015. Hann lýsti því að í húsinu byggi fjöldi manns, aðallega útlendingar í stökum herbergjum. Þá væri þar allt morandi í myglusvepp.

Jóhannes sagði í samtali við Stundina á sínum tíma að húsið væri með „öllu óhæfur mannabústaðir“. Hann hafi verið eini Íslendingurinn sem bjó í húsinu á sínum tíma og leigt þar lítið herbergi á 90 þúsund krónur á mánuði. Þá lýsti hann gjörónýtum gluggum og engum brunaútgönguleiðum.

„Ef kviknaði í stigaganginum yrði fólk að steypa sér gegnum gluggana af 2-3 hæð eða verða eldsmatur,“ skrifaði Jóhannes í skeyti til Stundarinnar árið 2015.

Leikskólinn 101 og ruslahaugur

Þá var ungbarnaleikskólinn Leikskólinn 101 til húsa á neðstu hæð hússins um árabil en honum var lokað árið 2013 eftir að ásakanir voru bornar á hendur starfsmönnum um harðræði gegn börnum sem þar voru í vistun.

Málið komst upp þegar tveir sum­ar­starfs­menn leik­skól­ans sýndu Barna­vernd­ar­nefnd Reykja­vík­ur myndskeið af meintu harðræði í ágúst 2013 og tilkynntu málið þá til lögreglu. Lögregla rannsakaði málið en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað ári síðar að fella málið niður. Leikskólinn var svo tekinn til gjaldþrotaskipta árið 2015.

Þá hefur líka verið fjallað um málefni hússins allra síðustu ár. Sumarið 2018 fjallaði Eiríkur Jónsson um slæma umgengni við húsið að Bræðraborgarstíg 1, sem í umfjöllun hans er sagt hýsa starfsmenn starfsmannaleigu.

Íbúi í nágrenninu hafði þá nokkrum sinnum kvartað yfir umgengni við húsið, þar sem myndast hafði stór ruslahaugur.


Tengdar fréttir

„Húsið eiginlega farið“

„Eins og þið sjáið bak við mig þá er húsið eiginlega farið, þetta háreista hús en viðbyggingin virðist hafa sloppið,“ sagði Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri í samtali við fréttastofu á vettvangi brunans á Vesturgötu.

Reykjarmökkinn lagði yfir vesturborgina

Mikinn reyk hefur lagt yfir vesturhluta Reykjavíkur nú síðdegis eftir að eldur kviknaði í íbúðarhúsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu á fjórða tímanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.