Innlent

„Húsið eiginlega farið“

Andri Eysteinsson skrifar

„Eins og þið sjáið bak við mig þá er húsið eiginlega farið, þetta háreista hús en viðbyggingin virðist hafa sloppið,“ sagði Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri í samtali við fréttastofu á vettvangi brunans á Vesturgötu.

Eldur kom upp í íbúðarhúsi á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs á fjórða tímanum í dag og varð húsið alelda. Fjórir voru fluttir á slysadeild og að minnsta kosti þrír voru handteknir við húsið og leiddir í lögreglubíla.

Jón sagði fólkið sem bjargað var vera mismikið slasað en gat ekki greint nánar frá meiðslum fólksins. Jón staðfesti þó að það væri vegna eldsvoðans. Fólkinu var bjargað af efri hæð hússins að sögn Jóns sem bætti þó við að einhverjir hafa geta komist út úr húsinu af sjálfsdáðum.

Þá hafi þurft að stöðva fólk sem reyndi að hlaupa inn í alelda húsið.

Jón sagði slökkviliðið vera að ná tökum á eldsvoðanum. „Við erum að reyna að ná tökum á þessu. Milligólfið er farið að gefa sig og stigarnir eru farnir. Við þurfum að vinna dálítið utan frá,“ sagði Jón sem sagði ekkert hægt að segja til um eldsupptök.

Þá séu ekki líkur á því að eldurinn dreifist úr sér í nærliggjandi hús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×