Innlent

Göngumaðurinn fannst í sjálfheldu í Skálavík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hitamyndavél Landhelgisgæslunnar skipti sköpum við leitina að manninum.
Hitamyndavél Landhelgisgæslunnar skipti sköpum við leitina að manninum. Landhelgisgæslan

Maðurinn sem leitað var að á Vestfjörðum fannst nú rétt fyrir klukkan sex í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann manninn, einan á ferð og símalausan, þar sem hann hafði lent í sjálfheldu við Kroppstaðahorn í Skálavík.

Hann hafði hrasað og var með minniháttar áverka á höfði. Maðurinn var fluttur til Ísafjarðar með þyrlunni þar sem hann var færður undir læknishendur.

Hitamyndavél þyrlunnar skipti sköpum við að finna manninn sem féll inn í umhverfið, líkt og sjá má af myndum frá Landhelgisgæslunni. Erfitt var að sjá manninn með berum augum en hann sást vel með hitamyndavélinni.

Lögregla, björgunarsveitir og áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar leituðu mannsins í Skálavík.Vísir/Andri

Tugir björgunarsveitamanna af norðanverðum Vestfjörðum höfðu leitað mannsins síðan seint í gærkvöldi á svæði í grennd við bifreið sem hann skildi eftir í Skálavík. Maðurinn lagði af stað í göngu í gær en fjölskylda hans gerði lögreglu viðvart þegar þeir fóru að óttast um hann síðdegis.

Í tilkynningu lögreglu segir að snemma í morgun hafi staðið til að gera hlé á leitinni og halda henni áfram klukkan tíu en ekkert varð úr því þar sem maðurinn fannst.

Útsýni frá þyrlu Landhelgisgæslunnar við leitina.Landhelgisgæslan


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×