Innlent

Ingibjörg nýr formaður Félags eldri borgara

Andri Eysteinsson skrifar
Aðalfundurinn var haldinn í Súlnasal Hótels Sögu.
Aðalfundurinn var haldinn í Súlnasal Hótels Sögu. Samsett/Vilhelm

Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni var Ingibjörg Sverrisdóttir kjörin nýr formaður FEB en framboð Ingibjargar hlaut 62% greiddra atkvæða í formannskjöri.

Aðalfundur FEB var haldinn í dag í Súlnasal Hótels Sögu en fráfarandi formaður FEB, Ellert B. Schram gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Þrjú voru í framboði til formanns en auk Ingibjargar voru þeir Haukur Arnþórsson og Borgþór Kjærnested í framboði.

Alls greiddu 423 fundargestir atkvæði og skiptust þau svo að Ingibjörg hlaut 262 atkvæði eða 62%, Haukur Arnþórsson hlaut 30% atkvæða eða 131 en Borgþór Kjærnested rak lestina með 29 atkvæði sem jafngildir 6,8% kosningu.

„Hópur eldri borgara býr svo sannarlega ekki við góð kjör. Kjaramál og skerðingar taka mikið rými í umræðunni og sérlega þessa dagana vegna uppgjörs frá Tryggingastofnun ríkisins sem barst um sl. mánaðamót. Þetta þekkið þið flest, sem eruð hér inni. Mín áherslumál snúa að skerðingum og kjaramálum, húsnæðismálum, hjúkrunarheimilum og heimilisaðstoð,“ sagði Ingibjörg í framboðsræðu sinni.

Ingibjörg er Reykvíkingur sem ólst að hluta til upp í Vestmannaeyjum, hún hefur stundað tungumálanám erlendis auk náms í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Áður en hún fór á eftirlaun starfaði Ingibjörg hjá Air Atlanta.

Í aðalstjórn voru kjörnir:

Ingibjörg Óskarsdóttir

Kári Jónasson

Viðar Eggertsson

Sigurbjörg Gísladóttir

Í varastjórn voru kjörnir:

Finnur Birgisson

Sverrir Örn Kaaber

Haukur Arnþórsson



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×