Innlent

Ekki ákveðið hvort Bandaríkjamenn eða aðrir utan EES og EFTA geti komið eftir 15. júní

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fáir hafa verið á ferli í Leifsstöð að undanförnu en það gæti farið að breytast.
Fáir hafa verið á ferli í Leifsstöð að undanförnu en það gæti farið að breytast. Vísir/Vilhelm

Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvort þær ferðatakmarkanir á ferðalögum hingað til lands sem eru í gildi fyrir ríkisborgara þeirra landa sem tilheyra ekki Schengen-svæðinu, EES, ESB eða EFTA verði framlengdar eftir 15. júní næstkomandi, þegar núverandi gildistími takmarkana rennur út.

Þetta kemur fram í stöðuppfærslu á Facebook-síðu utanríkisráðuneytisins þar sem tekið er fram að Ísland muni áfram taka þátt í þeim ákvörðunum sem aðildarríki Schengen muni taka í tengslum við framlengingu eða afnám á ferðatakmörkunum. Tekið er fram að svo kunni að vera að ferðatakmarkanir sem eru í gildi á Schengen-svæðinu verði framlengdar til 1. júlí næstkomandi, en þær tóku fyrst gildi 20. mars síðastliðinn.

Ekkert hafi hins vegar verið ákveðið í þeim efnum og að ákvörðunin sé í höndum aðildarríkjanna. Á meðan þessar ferðatakmarkanir eru í gildi eru landamæri Íslands í raun lokuð fyrir þeim sem eru ekki ríkisborgarar ríkja EES eða EFTA, að því er segir á vef Útlendingastofnunar. Á þessu er þó ýmsarundanþágur.

Þetta rímar við þær upplýsingar sem gefnar voru í gær eftir að breytingar á þeim reglum sem gilda um komu ferðamanna til Íslands frá og með 15. júní. Þar kom fram að ekkert hafi verið ákveðið um það hvort takmarkanir á ytri landamærum Schengen yrðu framlengdar til 1. júlí.

Á vef Útlendingastofnunar segir að landamæri Íslands séu nú opin íbúum og ríkisborgurum EES og Sviss, breytingarnar sem kynntar voru í gær og taka gildi 15. júní þýði einfaldlega að farþegum sem heimilt er að ferðast til Íslands eigi kost á að fara í sýnatöku vegna COVID-19 á landamærum í stað 14 daga sóttkvíar eins og nú er krafan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×