Innlent

Brjóstaskimanir gætu fallið niður í fjóra mánuði

Kjartan Kjartansson skrifar
Brjóstaskimun
Stöð 2

Krabbameinsfélag Íslands varar við því að skimun fyrir brjóstakrabbameini gæti fallið niður tímabundið í að minnsta kosti fjóra mánuði frá næstu áramótum vegna ákvörðun ráðherra um að færa skimunina til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri.

Samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið um skimanir fyrir brjóstakrabbameini rennur út um áramótin og heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að þær færist til sjúkrahúsanna. Landspítalinn hefur óskað eftir að því verði frestað til 1. maí á næsta ári.

Í ályktun aðalfundar Krabbameinsfélagsins í dag er varað við að „grafalvarleg staða“ komi þá upp um áramótin.

„Ef skimanir fyrir brjóstakrabbameinum falla niður í fjóra mánuði má gera ráð fyrir að greining og meðferð sjúkdómsins dragist úr hófi fram fyrir tugi kvenna,“ segir í ályktuninni þar sem er jafnframt bent á að brjóstakrabbamein sé langalgengasta krabbameinið hjá konum.

Batahorfur séu mjög góðar hér á landi, sérstaklega ef sjúkdómurinn greinist snemma. Um 90% kvenna eru á lífi eftir fimm ár og um 80% geta vænst þess að vera á lífi eftir tíu ár. Að meðaltali deyja 49 konur á ári úr sjúkdómnum.

„Árangur varðandi brjóstakrabbamein hefur verið með ágætum hér á landi, en ef við viljum halda í þann góða árangur má hvergi slaka á,“ segir í ályktuninni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.