Innlent

Um 700 jarðskjálftar við Þorbjörn frá því í síðustu viku

Kjartan Kjartansson skrifar
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn. Myndin var tekin í vetur þegar jarðhræringar hófust á svæðinu.
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn. Myndin var tekin í vetur þegar jarðhræringar hófust á svæðinu. Vísir/Vilhelm

Vísindaráð almannavarna ætla að funda til að meta stöðuna eftir að vísbendingar komu fram um að landris sé hafið á ný við fjallið Þorbjörn við Grindavík. Um 700 jarðskjálftar hafa í nágrenni bæjarins undanfarna viku, flestir þeirra smáskjálftar.

Fylgst hefur verið grannt með svæðinu í kringum Þorbjörn eftir að landris mældist þar með tilheyrandi jarðskjálftum í upphafi árs. Jarðviknin var tengd við mögulegt kvikuinnskot á Reykjanesskaga. Óvissustig almannavarna vegna jarðhræringa er enn í gildi á Reykjanesskaga.

Landrisið minnkaði í byrjun apríl og lauk hrinunni um miðjan þann mánuð, að því er segir í grein á vef Veðurstofu Íslands. Nýjustu gögn benda hins vegar til þess að landrisið sé hafið að nýju. Frá 30. maí þegar jarðskjálftavirkni jóst aftur hafa um 700 skjálftar mælst. Stærstu skjálftarnir voru 2,7 að stærð dagana 30. maí og 2. júní.

Til stendur að leggja mat á stöðuna við Þorbjörn og fara yfir gögn sem vísindamenn Veðurstofunnar, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og ÍSOR hafa safnað saman og unnið úr á fundi vísindaráðs almannavarna á miðvikudag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×