Fótbolti

Fékk morðhótanir eftir mistökin gegn Króatíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Willy Caballero í öngum sínum eftir mistökin sem gáfu Króatíu mark gegn Argentínu á HM 2018.
Willy Caballero í öngum sínum eftir mistökin sem gáfu Króatíu mark gegn Argentínu á HM 2018. getty/Elsa

Willy Caballero segist hafa fengið morðhótanir eftir mistökin sem hann gerði í leik Argentínu og Króatíu á HM 2018 í Rússlandi.

Ante Rebic kom Króötum á bragðið á 53. mínútu eftir slæm mistök Caballeros. Luka Modric og Ivan Rakitic bættu svo við mörkum og Króatía vann 0-3 sigur. Caballero átti ekki sjö dagana sæla eftir leikinn.

„Ég fékk mjög öfgafull skilaboð, þar á meðal morðhótanir. Það fékk mig til að hugsa mikið um fjölskylduna og framtíðina,“ sagði Caballero.

Hann lék fyrstu tvo leiki Argentínu á HM í Rússlandi, gegn Íslandi og Króatíu, en var tekinn úr byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Nígeríu í lokaumferð riðlakeppninnar. Franco Armani tók stöðu Caballeros.

Argentínumenn tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum með 2-1 sigri á Nígeríumönnum. Lengra komust þeir þó ekki því Frakkar unnu þá 4-3 í sextán liða úrslitunum.

Caballero segist hafa skilið þá ákvörðun Jorges Sampaoli að taka hann úr liðinu eftir mistökin gegn Króatíu.

„Ég hefði viljað fá eitt tækifæri í viðbót til að bæta fyrir mistökin en ég virði ákvörðun Jorges,“ sagði Caballero sem hefur ekki leikið fyrir argentínska landsliðið síðan í leiknum gegn Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×