Innlent

Gerir ráð fyrir að ríkið og Reykja­víkur­borg deili kostnaði neyslu­rýma

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þróun neyslurýma löngu orðna tímabæra. 
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þróun neyslurýma löngu orðna tímabæra.  Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að ríkið muni standa undir helmingi kostnaðar við rekstur neyslurýmis á móti Reykjavíkurborg. Endurskoða þarf heimildir til vörslu neysluskammta í grennd við staðinn og mun lögreglan hefja skoðun á því í næstu viku.

Sveitarfélögum er nú heimilt að stofna og reka neyslurými samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í vikunni. Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar sagði í samtali við fréttastofu að horft væri til miðborgarinnar fyrir fyrsta rýmið.

„Boltinn er hjá borginni og ég held að Reykjavíkurborg sé lang best til þess fallin að meta hvernig þjónustu við þessa íbúa verði best háttað,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að árlega noti um 700 einstaklingar vímuefni í æð en gert er ráð fyrir að um 25 til 40 manns muni nota þjónustuna til að byrja með. Í neyslurýminu getur fólk sér að refsilausu neytt vímuefna í æð í öruggu umhverfi undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks.

Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig þjónustan verði fjármögnum og hefur Reykjavíkurborg bent á að heilbrigðisþjónusta eigi að vera á höndum ríkisins.

Að sögn Svandísar er gert ráð fyrir fimmtíu milljóna króna árlegu framlagi úr ríkissjóði, eða um helmingi þess sem kostar að halda úti þjónustunni.

„Bæði rekstrinum og því sem þarf til til þess að koma þessu á laggirnar. Ég held að heilbrigðisráðuneytið og Reykjavíkurborg séu algjörlega samstíga í því hversu mikilvæg þessi þjónusta er og ég held að við ættum ekki að láta eitthvert tog um milljónir til eða frá hægja á þróun sem er löngu tímabær.“

Í næstu viku hefst vinna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við útfærslu, endurskoða þarf heimildir til vörslu neysluskammta í grennd við neyslurýmið og einnig þarf að skilgreina leyfilega stærð þeirra. Ráðherra segir heimild til vörslu neysluskammta þurfi að skoða í samhengi við staðsetningu.

„Síðan þyrfti að tryggja að þetta snerist um tiltekið svæði í kringum neyslurýmið og svo framvegis þannig það byggir í raun og veru á því hvernig þetta yrði staðsett,“ segir Svandís.


Tengdar fréttir

Ákjósanlegt að opna neyslurými í miðborginni

Ákjósanlegt væri að opna neyslurými í miðborg Reykjavíkur að sögn formanns velferðarráðs borgarinnar. Margt sé þó óskýrt og hún telur að ríkið þurfi að koma til með fjármagn fyrir rekstri þar sem heilbrigðisþjónusta eigi ekki að vera á höndum sveitarfélaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×