Innlent

Hundruð manna fá ekki matargjafir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ekki verður hægt að fá mat hjá Mæðrastyrksnefnd næstu vikuna til að vernda sjálfboðaliða sem starfa hjá samtökunum.
Ekki verður hægt að fá mat hjá Mæðrastyrksnefnd næstu vikuna til að vernda sjálfboðaliða sem starfa hjá samtökunum. visir/vilhelm
Mæðrastyrksnefnd verður lokuð næstu vikuna vegna kórónuveirunnar og verður ekki með matargjafir á þriðjudag og miðvikudag eins og vaninn er.

„Það koma tvö til þrjú hundruð manns á tveimur klukkutímum til okkar. Það er mikill fjöldi og nándin er mikil. Við verðum að verja sjálfboðaliðana sem útdeila matnum,“ segir Aðalheiður Frantzdóttir, framkvæmdastjóri Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Þeir verst settu geta þó sett sig í samband nefndina. „Við þekkjum vel til fólksins okkar og það þekkir okkur vel. Þannig að það getur hringt í okkur og við sinnum því eftir þörfum.“

Aðalheiður segist vissulega hafa áhyggjur af þessum hópi sem þarf sannarlega á þessari aðstoð að halda og má ekki við því að missa af matargjöfum. En hún bætir við að hún hafi áhyggjur af þessum hópi allt árið um kring. Varðandi næstu vikuna vonar hún að hið opinbera sinni fólkinu. 

„Félagsþjónusta Reykjavíkur hlýtur að grípa til sinna ráða. Neyðarþjónustan er ekki og á ekki að vera framfærsla fólks,“ segir Aðalheiður.

Metið verður í næstu viku hvort lokað verði áfram hjá Mæðrastyrksnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×