Innlent

Rann í gegnum hurðina og endaði í bíl­skúr ná­grannans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Talsvert tjón varð á bílnum og bílskúrnum.
Talsvert tjón varð á bílnum og bílskúrnum. Vísir/Vilhelm

Umferðaróhapp varð í Árbænum á sjötta tímanum í gær þegar mannlaus bíll rann aftur á bak, braust í gegnum bílskúrshurð hjá nágranna og endaði loks inni á bílskúrsgólfi.

Skemmdir urðu á bifreiðinni, bílskúrshurðinni og munum í bílskúrnum, til að mynda tjaldvagni, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Þá stóð lögregla að nokkuð umfangsmiklu eftirliti með umferð í bæði Ártúnsbrekku og á Kringlumýrarbraut við Fossvog milli klukkan 20 og fram undir morgun.

Tíu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Kringlumýrarbraut. Einn ökumaðurinn mældist á 106 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 80. Hann reyndist jafnframt aka ölvaður og sviptur ökuréttindum.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í Ártúnsbrekku. Einn ökumaðurinn reyndist aðeins 17 ára og ók á 126 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 80. Málið var afgreitt með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar.

Þá var 16 ára stúlka, sem aldrei hafði öðlast ökuréttindi, stöðvuð á rúntinum með vinkonu sinni. Málið var unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til barnaverndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×