Innlent

Telur drög að auðlindarákvæði í stjórnarskrá ekki koma í veg fyrir framsal

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrum formaður nefndar um gjadltöku á fiskiauðlindinni.
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrum formaður nefndar um gjadltöku á fiskiauðlindinni. Vísir/Berghildur

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrum formaður nefndar um gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni telur að drög  um auðlindarákvæði í stjórnarskránni feli ekki í sér að bannað verði að framselja kvóta. Hann segir mikilvægt að setja tímamörk á afnotarétt á auðlindum sem teljast þjóðareign

Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis gagnrýndi harðlega í fréttum okkar í gær að hægt væri að erfa aflaheimildir en eigendur Samherja framseldu nánast alla hlutabréfaeign sína í félaginu til barna sinna í vikunni. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Samherji ræður yfir 7% aflaheimilda og er í öðru sæti yfir stærstu útgerðirnar hér á landi í því tilliti. Í síðasta ársreikning félagsins voru aflaheimildirnar metnar á sem samsvarar um 23 milljörðum króna á núverandi gengi. Lilja telur að ef auðlindarákvæði væri komið inn í stjórnarskrá kæmi það í veg fyrir slíkt framsal.

„Aflaheimildir eiga að vera úthlutaðar með nýtingu í huga en ekki eignarétti sem er að birtast í þessum miklu tilfærslum milli kynslóða. Auðlindin okkar sem við teljum sameign þjóðarinnar og er í lögum um stjórn fiskveiða. hún er það ekki í raun og þess vegna er svo mikilvægt að setja auðlindarákvæði í stjórnarskránna,“ Segir Lilja. 

Í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands þar kemur meðal annars fram að við lögin bætist að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Þá segir enn fremur að með lögum skuli kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrum formaður nefndar um gjaldtöku á fiskauðlindinni telur að ákvæðið eins og það lítur út núna komi ekki í veg fyrir framsal.

„Eins og textinn er orðaður núna þá hefur hann engin áhrif og allra síst til að koma í veg fyrir framsal af þessu tagi. Þetta er bara orðalag um óbreytt ástand því miður. Þarna þyrfti að koma inn skýrt ákvæði um tímamörk veiðiréttarins, “ segir Þorsteinn Pálsson. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×