Innlent

Leit að skip­verjanum hafin að nýju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leit björgunarsveita í Vopnafirði í gær.
Frá leit björgunarsveita í Vopnafirði í gær. Jón Helgason

Leit að skipverja sem saknað hefur verið síðan á mánudag hófst að nýju í Vopnafirði í morgun, samkvæmt áætlun. Leitað verður í dag og stefnt að því að fara tvisvar yfir leitarsvæðið sem teygir sig yfir allan Vopnafjörðinn og fjörur beggja vegna við hann, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Austurlandi. 

Notast verður við slöngubát og sjóþotur, auk þess sem fjörur verða gengnar. Björgunarsveitin Vopni og slysavarnafélagið Sjöfn sinna leit.

Um 140 menn frá björgunarsveitum af Austur- og norðuausturlandi leituðu að skipverjanum í gær með aðstoð Landhelgisgæslu og lögreglu. Notast hefur verið við björgunarbáta og skip, dróna, bæði fljúgandi og neðansjávardróna, sem og flugvél Landhelgisgæslunnar.

Vopni mun annast leitina næstu daga og fram að helgi. Stefnt er að því að fjölga þá í leitarliði að nýju og taka svo ákvörðun um framhald leitarinnar, hafi hún ekki borið árangur.

Skipverjans hefur verið saknað frá því klukkan tvö síðdegis á mánudag. Talið er að hann hafi fallið útbyrðis af fiskiskipi sem var á leið til hafnar í Vopnafirði.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×