Innlent

Sex heiti á nýju sveitar­fé­lagi verða í boði

Atli Ísleifsson skrifar
Sameining Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust.
Sameining Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust. Vísir/Hafsteinn

Íbúar í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi munu greiða atkvæði um sex nafnatillögur í íbúakosningum sem fram fara 18. apríl næstkomandi.

Verða greidd atkvæði um Austurþing, Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá. Atkvæðagreiðan verður ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sveitarfélagsins.

Sameining Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust.

Örnefnanefnd hefur nú skilað umsögn um sautján tillögur að heitum sem Nafnanefnd sveitarfélagsins sendi til umsagnar í febrúar. Mælti Örnefnanefnd með tveimur heitum – Múlabyggð og Múlaþinghá – en mælti ekki gegn fjórum – Austurbyggð, Austurþingi, Austurþinghá og Múlaþingi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur undirbúningsstjórn sameiningarinnar ákveðið að Austurbyggð verði ekki einn möguleikanna, þar sem sveitarfélagið Austurbyggð varð til við sameiningu Búðahrepps og Stöðvarhrepps árið 2003. Það sameinaðist svo fleiri sveitarfélögum árið 2006 undir merkjum Fjarðabyggðar.

Þess í stað hefur undirbúningsstjórnin ákveðið að bæta við möguleikanum Drekabyggð – heiti sem Örnefnanefnd mælist gegn því að verði fyrir valinu. Í umsögn Örnefnanefndar segir að ekki sé hefð fyrir því að kenna stór svæði við dreka eða aðrar landvættir, en drekinn er einmitt landvættur Austurlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×