Innlent

Meintir handrukkarar þurfa að víkja úr dómsal

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mennirnir þurfa, allir nema einn, að víkja þegar brotaþolar gefa skýrslu fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri.
Mennirnir þurfa, allir nema einn, að víkja þegar brotaþolar gefa skýrslu fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Fjórir af fimm sakborningum í handrukkunarmáli á Akureyri þurfa að víkja úr dómsal þegar brotaþoli gefur skýrslu fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Þá sneri Landsréttur við öðrum úrskurði sama héraðsdóms sem hafði ekki fallist á að sakborningar þyrftu að víkja þegar fórnarlamb í stunguárás gæfi skýrslu í tengslum við annað mál.

Fyrra málið tengist sem fyrr segir handrukkunarmáli þar sem mönnunum fimm er gefið að sök að hafa átt aðild að því að frelsissvipta annan mann. Eru þeir grunaðir um að hafa svipt brotaþola frelsinu í meira en fimm klukkustundir til að knýja á um greiðslu skuldar við einn af þeim sem ákærður er í málinu.

Fórnarlambið sagðist treysta sér illa til þess að gefa skýrslu fyrir dómi með hina grunuðu viðstadda í dómsal, hann upplifi stöðugan ótta við menninna. Lagt var fram mat geðlæknis sem taldi verulegar líkur á því að nærvera mannanna við skýrslugjöf fórnarlambsins myndi hafa áhrif á framburð þess.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að mennirnir fimm ættu að víkja. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms, utan þess að einn fimmmenninganna þarf ekki að víkja úr dómsal, þar sem honum er ekki gefið að sök að hafa framið ofbeldisbrot gegn fórnarlambinu.

Þá tók Landsréttur einnig fyrir kæru brotaþola í hnífstungumáli á Akureyri en hann hafði krafist þess að sakborningarnir í málinu myndu yfirgefa dómsal á meðan það gaf skýrslu. Hann sé enn hræddur við árásarmenninna og fólk sem þekki þá. Héraðsdómur hafnaði kröfu fórnarlambsins en Landsréttur sneri úrskurðinum við, og þurfa sakborningarnar tveir því að víkja úr dómsal á meðan fórnarlamið gefur skýrslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×