Innlent

Stefán ráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ráðið hefur verið í tvær forstöðumannastöður á Reykjalundi að undanförnu eftir ólgu síðustu mánaða.
Ráðið hefur verið í tvær forstöðumannastöður á Reykjalundi að undanförnu eftir ólgu síðustu mánaða. Vísir/vilhelm

Stefán Yngvason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. Hann hefur störf um mánaðamótin en hann er annar forstöðumaðurinn sem ráðinn er til starfa á Reykjalundi á síðustu dögum. Áður var greint frá ráðningu Péturs Magnússonar en hann verður forstjóri Reykjalundar frá og með 1. júní. Mikil ólga var á Reykjalundi í vetur eftir að Birgi Gunnarssyni forstjóra Reykjalundar til tólf ára var óvænt sagt upp störfum í október í fyrra rétt eins og forvera Stefáns, Magnús Ólasyni.

Stefán er sérfræðingur í endurhæfingarlækningum og hefur starfað við fagið frá árinu 1988, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Hann er jafnframt formaður starfsstjórnar Reykjalundar og starfandi framkvæmdastjóri lækninga.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.

Hann var við stjórnvölin við uppbyggingu endurhæfingardeildar á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit og hefur að sama skapi verið yfirlæknir á Grensásdeild Landspítaka. Ásamt því var hann sviðstjóri endurhæfingarsviðs spítalans þegar sameining Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur varð að veruleika.

„Stefán er ótvíræður leiðtogi í endurhæfingalækningum og hefur í starfi sínu sem slíkur komið að þróun starfsemi á flestum sviðum í faginu á undanförnum áratugum,“ eins og það er orðað í tilkynningum um ráðningu hans.

Stormasöm misseri

Fjallað var mikið um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS. Málið komst fyrst í fjölmiðla eftir að Birgi Gunnarssyni, sem þá hafði verið forstjóri Reykjalundar í tólf ár, var óvænt sagt upp störfum af stjórn SÍBS. Þá var Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, einnig sagt skyndilega upp.

Í kjölfarið var Herdís Gunnarsdóttir ráðin forstjóri Reykjalundar og Ólafur Þór Ævarsson ráðinn framkvæmdastjóri lækninga. Herdís og Ólafur sögðu þó bæði störfum sínum lausum eftir skamman tíma í starfi.

Sérstök þriggja manna starfsstjórn Reykjalundar var þá sett á fót fyrir tilstilli heilbrigðisráðherra í nóvember. Starfsstjórninni var veitt fullt sjálfstæði og óskorað umboð til athafna við stjórnun Reykjalundar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×