Innlent

Helgihald hófst á ný í flestum kirkjum í morgun

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/Baldur

Helgihald hófst á ný í flestum kirkjum klukkan ellefu í morgun. Biskup Íslands segir að þrátt fyrir að helgihald geti nú farið fram inni í kirkjum standi til að halda áfram að streyma messum á netinu. 

Helgihald hófst á ný í þjóðkirkjunni í morgun en guðsþjónusta fór fram í flestum kirkjum klukkan ellefu. Nú verður unnt að halda jarðarfarir, brúðkaup og aðra viðburði innan kirkjunnar. Ekki mega þó fleiri en fimmtíu sækja hverja kirkju og enn verður tveggja metra reglan í gildi.

„Það er bara farið eftir þeim reglum sem eru í gildi, fimmtíu manna reglunni og tveir metrar á milli og svo er engin altarisganga,“ sagði Agnes. M Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Í Bessastaðakirkju fór messuhald fram með nokkuð óhefðbundnu sniði þar sem efnt var til umhverfismessu en sóknarfólk tók til hendinni og plokkaði rusl á svæðinu.

Eftir að samkomubannið tók gildi tók þjóðkirkjan upp á því að streyma messum á netinu. Biskup Íslands segir að til standi að halda því áfram þrátt fyrir að helgihald geti nú farið fram inni í kirkjum.

„Já ég held að það verði svona hefðbundið helgihald eins og það var en svo lærum við af þessu sem hefur verið núna og höldum því áfram þvi það eru margir sem fara inn á miðlana og horfa og hlusta þar en mæta ekki i kirkjuna af einhverjum ástæðum. Það er hlutverk okkar að koma þessum fallega, kærleiksríka og góða boðskap á framfæri og við munum nota allar leiðir til þess,“ sagði Agnes.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×