Innlent

Stefna á að fljúga TF-EIR til Reykjavíkur í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
TF-EIR á Sandskeiði.
TF-EIR á Sandskeiði. Landhelgisgæslan

Til stendur að TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar sem hefur verið föst á Sandskeiði síðan í gær, verði flogið til Reykjavíkur í dag. Þetta staðfesti Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi.

„Það er stefnan. Það er enn þá verið að vinna að viðgerð og ef allt gengur að óskum verður þyrlunni flogið til baka til Reykjavíkur í dag,“ segir Ásgeir.

Þyrlunni var lent á flugvellinum við Sandskeið í varúðarskyni eftir að aðvörunarljós gaf til kynna að olíuþrýstingur á aðalsmurkerfi gírkassa vélarinnar hafði fallið niður fyrir eðlileg viðmið.

Hann segir að enn liggi ekki fyrir hvers konar bilun hafi átt sér stað í vélinni, en unnið sé að því að komast til botns í málinu. 

Þyrlan sem um ræðir er af gerðinni Airbus H225 Super Puma. Á hlaupársdag 2016 létust 13 manns í slysi á slíkri þyrlu. Í kjölfarið voru þyrlur af sömu gerð kyrrsettar tímabundið. Rannsókn leiddi í ljós að tæring málms í gírkassa hefði verið orsök slyssins. Þá létust sjö manns í Suður-Kóreu á síðasta ári þegar samskonar þyrla hrapaði. Það slys hefur þó ekki enn verið upplýst að fullu.

Ásgeir segir þó að bilunin í TF-EIR sé ekki samskonar og þær sem komið hafa upp í þyrlum af sömu gerð.

„Alls ekki. Þetta er allt annars eðlis.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×