Innlent

Vill ekki undanskilja fámenn fyrirtæki frá fyrirtækjalistanum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Drífa Snædal er forseti ASÍ
Drífa Snædal er forseti ASÍ Vísir/vilhelm

Forseti ASÍ vill ekki undanskilja fámenn fyrirtæki frá birtingu lista yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda. Mikilvægt sé að birta upplýsingarnar til að koma í veg fyrir misnotkun.

Vinnumálastofnun vinnur nú að því að setja saman lista yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda. Von er á að listinn verði birtur eftir helgi.

Stofnunin skoðar nú hvort undanskilja eigi fámenn fyrirtæki frá listanum. Forstjóri Vinnumálastofnunar hefur áhyggjur af því að með birtingu fámennra fyrirtækja sé auðveldara að leiða af þeim upplýsingum, persónuupplýsingar um þá sem sækja bæturnar.

Persónuvernd segir að tilgangur með birtingu upplýsinganna sé að tryggja almannahagsmuni og stuðla að aðhaldi. Því er það mat persónuverndar að sá tilgangur náist ekki fyllilega verði fyrirtæki með fáa starfsmenn undanskilin með öllu frá birtingunni.

Forseti ASÍ tekur í sama streng og Persónuvernd og telur að birta eigi lista yfir öll fyrirtæki óháð stærð.

„Við höllum okkur að Persónuvernd. Okkur finnst mikilvægt að þetta sé eins gagnsætt og mögulegt er. Persónuvernd hefur í huga vernd persóna það er að segja launafólks og ef Persónuvernd er búin að úrskurða um það að það sé í lagi að birta listana án þess að það sé verið að uppljóstra um persónuupplýsingar launafólks þá höllum við okkur að þeirri skilgreiningu,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Hún vilji að upplýsingarnar séu birtar til að koma í veg fyrir að úrræðið sé misnotað.

„Við erum þarna, við sem skattgreiðendur að greiða mjög háar fjárhæðir til stuðnings fyrirtækja, til stuðnings launafólks í gegnum fyrirtækin þannig að ef að listi yfir fyrirtækin eru birt en ekki launafólk þá er það fullnægjandi að okkar mati,“ sagði Drífa.


Tengdar fréttir

Fyrirtækjalistinn verður birtur

Listi yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda verður birtur. Unnið er að því að koma listanum í birtingarhæft form og er því ekki von á honum fyrr en líklega í næstu viku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.