Innlent

Lagði 70 þúsund inn á svindlara fyrir síma sem aldrei barst

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ljósmynd af kvittun fyrir umræddum farsíma sem lögreglu barst frá hinum óheppna kaupanda í gær.
Ljósmynd af kvittun fyrir umræddum farsíma sem lögreglu barst frá hinum óheppna kaupanda í gær. Lögreglan

Dæmi eru um að fólk hafi lagt tugi þúsunda króna inn á netsvindlara, sem bjóða vörur til sölu sem aldrei berast. Einstaklingur í umdæmi lögreglu á Suðurnesjum millifærði 70 þúsund krónur inn á reiknings slíks svindlara en fékk aldrei farsímann sem samið var um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Í tilkynningu varar lögregla við varasömum viðskiptum gegnum netið og bendir fólki á að fara varlega í þeim efnum, einkum við fólk sem það þekkir ekki. Tilkynningar hafi borist lögreglu undanfarnar vikur, þar sem fólk hefur greitt fyrir vöru sem það aldrei fær.

„Í þessum tilfellum hefur fólk keypt farsíma á netinu og „seljandinn“ hefur útbúið falsaða kvittun sem sýnir fram á að varan sé komin í póst og hafa þá kaupendur millifært talsverðar upphæðir inn á „seljandann“ eftir að hann sendir þeim ljósmynd af kvittuninni. Það getur verið varasamt að stunda viðskipti á netinu og viljum við hvetja fólk til að fara varlega í því og huga að því hvort allt sé eðlilegt við seljandann.“ 

Málin eru til rannsóknar hjá lögreglu á Suðurnesjum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×