Innlent

Kári montinn af smitrakninga­t­eyminu og segir árangur þess ó­trú­legan

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kári Stefánsson er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, brá sér í morgun inn á upplýsingavef Almannavarna og landlæknisembættisins um útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi, covid.is. Þar sá hann sér til mikillar furðu hversu vel hefur gengið að rekja smit hérlendis. Hann segir árangur smitrakningateymis Almannavarna lykilinn að því hversu vel hefur gengið að halda veirunni í skefjum hér á landi.

Þetta sagði Kári á daglegum upplýsingafundi Almannavarna og landlæknis, þar sem hann var gestur og ræddi um mótefnamælingar og skimanir Íslenskrar erfðagreiningar fyrir Covid-19.

Af þeim 1.727 smitum sem greinst hafa hérlendis hefur tekist að rekja uppruna 1.719. Smit hvers uppruni er óþekktur eru þannig ekki nema átta. Rekja má 1.382 smit hér innanlands, en 337 einstaklingar eru taldir hafa smitast erlendis.

„Þetta er alveg ótrúlegur árangur og ég held því fram að þetta sé lykilinn að því hversu vel hefur tekist. Það er þetta rakningateymi sem er alveg ótrúlegt. Þetta er alveg ótrúlegt. Þetta er teymi sem á engan sinn líka nokkurs staðar í heiminum, og ég er býsna montinn af þessu fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×