Innlent

Netþrjótar segjast hafa gómað fólk við klámáhorf

Samúel Karl Ólason skrifar
Unsplash/Philipp Katzenberger

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið nokkuð af tilkynningum um að fólk hafi fengið ógnandi og grófa pósta þar sem reynt sé að kúga fé úr fólki. Sá sem póstana sendir þykist hafa brotið sér leið inn í tölvur viðtakanda og að hann hafi náð myndefni af þeim að skoða klámsíður.

Þeir sem póstana senda krefjast þess að fá greiðslu í Bitcoin eða annari rafmynt. Annars verði myndefnið birt á netinu.

Það sem gerir þessa pósta sérstaklega ógnandi er að þrjótarnir segjast hafa leyniorð viðkomandi. Póstinum fylgir oft lykilorð sem fólkið sem fær póstinn hefur notað.

Lögreglan ítrekar þó að hótunin sé innantóm. Enginn hafi tekið yfir tölvu fólks.

„Lykilorðið hafa þeir líklega fengið af því þeir hafa komist inn á vefsíðu sem viðkomandi hefur einhvern tíma skráð sig á og þar fá þeir lykilorð-netfang-notandanafn. Þessar upplýsingar eru síðan nýtar í slíkum pósti til að skapa hræðslu og óhug í þeirri von svindlaranna að fólk bregðist hrætt við og sendi peninga. Það getur verið mjög óþægilegt að fá slíkan póst og valdið uppnámi hjá fólki, enda er pósturinn sniðinn að því að hafa þau hughrif,“ segir í færslu á Facebooksíðu lögreglunnar.

Þar segir þó að sé enn verið að nota viðkomandi lykilorð sé gott að breyta því. Þá eigi ekki að senda peninga til þeirra sem senda póstana.

Lesendur geta séð hvort netföng þeirra eða lykilorð hafi lekið með því að fletta upp netföngum þeirra á síðunni Have I Been Pwned?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×