Innlent

Hermenn kærleikans verðlaunaðir

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði starf Hjálpræðishersins vera ríkan þátt í skilningi Íslendinga á því hvað sé að vera hinn miskunnarsami Samverji. Í bakgrunni eru þeir sem tilnefndir voru til Samfélagsverðlaunanna.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði starf Hjálpræðishersins vera ríkan þátt í skilningi Íslendinga á því hvað sé að vera hinn miskunnarsami Samverji. Í bakgrunni eru þeir sem tilnefndir voru til Samfélagsverðlaunanna. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Hjálpræðisherinn hlaut Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins í gær. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Auk verðlaunagrips hlutu samtökin eina milljón króna í verðlaunafé.

„Hjá Hjálpræðishernum er engum úthýst," sagði Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og formaður dómnefndarinnar. „Hann hefur starfað hér á landi í meira en hundrað ár. Kærleikur knýr starfsemina áfram og hefur starf hersins iðulega beinst að þeim sem minnst mega sín í samfélaginu."

Auk Hjálpræðishersins voru Saman-hópurinn, ABC-hjálparstarf, Lögfræðiaðstoð Orators og BAS-hópurinn tilnefnd til Samfélagsverðlaunanna. Verðlaunin eru veitt félagasamtökum sem hafa unnið framúrskarandi mannúðareða náttúruverndarstarf og lagt sitt af mörkum til að gera íslenskt samfélag betra fyrir okkur öll. Verðlaun voru veitt í fjórum öðrum flokkum í gær: Hvunndagshetjan, Frá kynslóð til kynslóðar, Til atlögu gegn fordómum og heiðurs verðlaun.

Hvunndagshetjan var valin Ragna Marinósdóttir, sem hefur nýtt reynslu sína af umönnun fatlaðra sona sinna til hagsbóta öðrum foreldrum fatlaðra barna. Í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar hlutu hjónin Þorsteinn Bjarni Einarsson og Sigríður Steingrímsdóttir verðlaunin, en þau tóku börn í skammtímavist á heimili sínu í átján ár.

Í verðlaunaflokknum Til atlögu gegn fordómum var tónlistarmaðurinn Hörður Torfason verðlaunaður. „Það framlag hans að ganga á sínum tíma fram fyrir skjöldu sem samkynhneigður markaði djúp spor á Íslandi, spor sem aldrei mun fenna í," sagði Steinunn við afhendinguna.

Að lokum hlaut Guðrún Halldórsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur, heiðursverðlaun. Þau eru veitt einstaklingi sem hefur helgað líf sitt því verkefni að bæta samfélagið. Guðrún var heiðruð fyrir framlag sitt til menntunar ungmenna og fullorðinna sem hafa staðið höllum fæti í skólakerfinu.

Í dómnefnd voru, auk Steinunnar, Reynir Ingibjartsson, formaður Aðstandendafélags aldraðra, Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi, Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON, og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×