Innlent

Íslendingar mikilvægir í Afganistan

Forsætisráðherra fundaði með framkvæmdastjóra NATO í Brussel í gær.
Forsætisráðherra fundaði með framkvæmdastjóra NATO í Brussel í gær. NORDICPHOTOS/AFP

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir þátttöku Íslands í friðargæslu í Afganistan mikilvæga og telur lofsvert að þar séu um 30 Íslendingar að störfum.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Scheffer ræddust við í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel gær. Helstu málefni fundarins voru framkvæmd lofthelgieftirlitsins, norðurslóðamál og undirbúningur leiðtogafundar NATÓ-ríkja í Búkarest í apríl.

Geir fundaði líka með Jean- Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, í gær. Ræddu þeir einkum um samskipti ríkjanna, Evrópumál og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Kvaðst Juncker þegar hafa heitið Austurríkismönnum og Tyrkjum atkvæðum í kjörinu.

Um Evrópumál sagðist Junck hafa spurt Geir hvort Íslendingar íhuguðu að taka upp evru einhliða. Honum hafi létt þegar Geir sagði slíkt ekki uppi á teningnum enda fylgdi slíku ýmis vandkvæði. Í gærmorgun heimsótti Geir íslensku bankana þrjá sem starfa í Lúxemborg; Glitni, Landsbankann og Kaupþing. Í gærkvöldi setti hann viðamikla Íslandshátíð sem stendur fram í júní.

Í dag mun Geir hitta fimm framkvæmdastjóra hjá Evrópusambandinu, þar á meðal José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×