Innlent

Frumvarp geri fyrirtækjum kleift að kljúfa uppsagnartímabil

Stefán Ó. Jónsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Fjármálaráðherra vill koma í veg fyrir mikla gjaldþrotahrinu.
Fjármálaráðherra vill koma í veg fyrir mikla gjaldþrotahrinu. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra kynnti á ríksstjórnarfundi í morgun nýtt frumvarp þar sem meðal annars er gert ráð fyrir stuðningi við fyrirtæki svo þau geti staðið í skilum á uppsagnarfresti.

Bjarni Bendiktsson segir að stuðningurinn sé bæði fyrir laun upp að 633 þúsund krónum og vegna launatengdra gjalda - „og þar er ég að vísa til lífeyrismálanna. Svo geta fyrirtækið verið með orlofsskuldbindingar gagnvart starfsmönnum,“ segir Bjarni.

Um sé að ræða 85 prósent hámark og að hugsað sé til þriggja mánaða. „Þarna er verið að tryggja fyrirtækum þann möguleika að geta klofið uppsagnartímabilið og þannig komist í var,“ segir Bjarni.

Vilja forðast hörmulegar afleiðingar fjöldagjaldþrota

Önnur lönd, t.d. Noregur, séu með það fyrirkomulag að geta sett alla sína starfsmenn á bætur í tekjuhruni. „Við erum ekki að fara þá leið hér heldur bara horfast í augu við það að sumir munu geta tekið þátt í launakostnaði og farið hlutabótaleiðina með breyttum skilyrðum, en félagsmálaráðherra mun mæla fyrir því máli, en önnur munu þurfa hreinlega að fara í uppsagnarferli,“ segir fjármálaráðhera.

Með þessu vilji stjórnvöld forða fjöldagjaldþrotum - „með öllum þeim hörmulegu afleiðingum sem af því gæti hlotist,“ eins og Bjarni orðar það.

Þetta eru þá fyrirtæki sem eru að fara í smá dvala?

„Já, það er hugsunin. Það er mikilvægt að það komi líka fram að dómsmálaráðherra mun koma fram með mál sem tengist endurskipulagningu og tengist gjaldþrotalögunum. Fleira kemur úr þeirri átt sem varðar verðulega rekstrarerfiðleika og þannig eru allar þessar aðgerðir að spila saman,“ segir Bjarni.

Hann bætir við að „auðvitað séu uppistaða fyrirtækjanna sem munu fara inn í þetta úrræði“ að líkindum ferðaþjónustufyrirtæki en samt séu líka dæmi um fyrirtæki sem „eru kannski ekki samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu í þeim geira.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×