Innlent

Mennirnir taldir af - leit hætt

Mannana þriggja, sem leitað var nærri Noregi eftir að togarinn Hallgrímur IS-77 sökk, eru taldir af samkvæmt norskum fjölmiðlum. Einum var bjargað á sjötta tímanum í dag. Hann er við góða heilsu.

Leit hefur verið hætt vegna veðurs. Fárviðri er á svæðinu og því er ekki hægt að leita að mönnunum lengur á flugi.

Talsmaður björgunarsveitanna í Noregi, sem leituðu mannanna, sagði allar líkur á mennirnir væru látnir.

Landhelgisgæslunni á Íslandi og í Noregi bárust neyðarkall um klukkan hálf tvö í dag. Þyrla gæslunnar í Noregi fann svo einn mann á lífi í sjónum rétt rúmlega fimm síðdegis.

Nokkru síðar fannst mannlaus björgunarbátur. Flugvél á vegum norska hersins hefur verið snúið við vegna veðurs en hún hefur verið á flugi á svæðinu síðan um kvöldmatarleytið.

Skipið, Hallgrímur, var selt í brotajárn í Noregi. Alls voru fjórir menn um borð í skipinu, sem var smíðað árið 1974. Það er útgerð á Siglufirði sem á skipið.

Allir mennirnir eru íslenskir.


Tengdar fréttir

Sjómaðurinn vel á sig kominn - þriggja enn leitað

Maðurinn, sem var bjargað úr sjónum síðdegis, er kominn í land, og er vel á sig kominn. Þriggja er enn saknað eftir að íslenskur togari sökk um 270 kílómetrum norðvestur af Stad sem er nærri Álasundi.

Íslenskt skip sökk nærri Noregi - þriggja saknað

Landhelgisgæslunni barst kl. 13:14 neyðarkall frá íslensku togskipi með fjóra menn um borð sem var staðsett innan norskrar lögsögu eða 150 sjómílur Norðvestur af Álasundi í Noregi.

Átti að selja skipið í brotajárn - fárviðri á svæðinu

Skipið, sem sökk nærri Noregi, var á leiðinni þangað þar sem selja átti það í brotajárn. Ekki er gefið upp hvað togarinn heitir en þriggja manna er saknað eins og Vísir hefur greint frá eftir að skipið sökk fyrr í dag. Norskir fjölmiðlar telja að þeir séu allir Íslendingar.

Fárviðri á leitarstað - þriggja manna enn leitað

Veðurskilyrði hafa versnað á svæðinu þar sem þriggja manna er nú leitað eftir að togarinn Hallgrímur SI-77 sökk í dag. Samkvæmt norska ríkisútvarpinu eru 30 metrar á sekúndu á svæðinu sem er fárviðri. Ölduhæð fer upp í fimmtán metra.

Fundu mannlausan björgunarbát

Aftenposten í Noregi greinir frá því að leitarmenn hafi fundið mannlausan björgunarbát í kvöld. Þriggja manna er saknað eftir að skipið Hallgrímur SI-77 sökk um 270 kílómetrum frá Stad, nærri Álasundi, um klukkan hálf tvö í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×