Innlent

Þrefalt fleiri leituðu til Píeta vegna sjálfsvígshugsana í apríl: Fleiri foreldrar leita til samtakanna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Fjöldi þeirra sem leita til Píeta samtakanna vegna sjálfsvígshugsana er þrefalt meiri í apríl mánuði í ár en í sama mánuði í fyrra. Þá leita fleiri áhyggjufullir foreldrar til samtakanna vegna barna sinna.

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum.„Nú eru margir að að upplifa áföll, hafa jafnvel verið hræddir út af faraldri, upplifað ótta, upplifað fjarhagslegt óöryggi og svo kannski í kjölfarið fylgir atvinnumissir,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta og bætir við að fólk sé misjafnlega í stakk búið til að takast á við áföll. 

Þá hafi rannsóknir sýnt fram á aukna tíðni sjálfvíga og sjálfvígshugsana á tímum faraldurs. Í apríl fyrra komu 64 einstaklingar í viðtal til samtakanna. „Nú eru það vel yfir tvö hundruð í apríl,“ segir Kristín. 

Þá hefur verið mikil aukning á símtölum í gegn um símalínu samtakanna. „Í apríl fengum við yfir fimm hundruð símtöl í hús og við ætlum að bregðast við með því að opna 24 tíma símalínu til að reyna sinna þörfinni,“ segir Kristín. 

Það sé allur gangur á því hverjir leiti til samtakanna. „Okkar aðal hópur í apríl hafa verið karlmenn og aðstandendur fólks sem er að glíma með sjálfsvígshugsanir,“ segir Kristín. Fólkið sé öllum aldri en flestir á bilinu 18 til 30 ára eða 45 til 55 ára.

„Það er svona viss aukning í að foreldrar séu að leita til okkar. Þá eiga þeir börn sem eru að glíma við sjálfsvígshugsanir eða eru að stunda sjálfsskaða á einhvern hátt,“ segir Kristín. 

Fólki með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×