Innlent

Aukið eftirlit eftir að Víði, Ölmu og Þórólfi var hótað

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Alma Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Alma Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu jók viðbúnað vegna hótanna sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Alma Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hafa fengið. Víðir segir hótanirnar ekki hafa áhrif á þá vinnu sem unnin er vegna kórónuveirufaraldursins.

Víðir, Alma og Þórólfur hafa stýrt viðbrögðum Íslendinga við kórónuveirufaraldrinum og verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni síðust vikur. Ákvarðanir sem teknar hafa verið vegna faraldursins hafa ekki alltaf þótt vinsælar.

Víðir staðfestir í samtali við fréttastofu að þeim þremur hafi borist óþægileg skilaboð, sem samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafi verið hótun um ofbeldi.

„Það er bara svona fólk sem hafði aðrar skoðanir á hlutunum og vildi koma þeim á framfæri og kannski gerði það ekki á kurteisan hátt,“ segir Víðir.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um málið og voru gerðar ákveðnar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti RíkislögreglustjóraVísir/Vilhelm

„Ég vil nú kannski ekki fara nákvæmlega út í hvað var gert en það var gripið til ákveðinna varúðarráðstafanna og við fylgjum því,“ segir Víðir.

Settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að þegar friðhelgi fólks er raskað eða öryggi þeirra ógnað sé það litið alvarlegum augum.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Jóhann K.

„Hótanir geta verið af margvíslegum toga en um leið og farið er að hóta ofbeldi eða lífláti, þá lítum við á slíkar hótanir mjög alvarlegum augum. Það segir sig sjálft að ef að fólk sem er í framlínu eða er áberandi í þjóðfélaginu verður fyrir svona að þá þarf að grípa til aukins viðbúnaðar,“ segir Hulda Elsa.

Ekki fengust upplýsingar um hvort einhver eða einhverjir hafi verið handteknir vegna málsins. Víðir segir að hótanirnar hafi ekki haft áhrif á þá vinnu sem hann, Alma eða Þórólfur hafa unnið vegna kórónuveirufaraldursins

„Við tæklum þetta bara eins og annað sem við erum að gera og vinnum þetta með fagfólki þannig að þetta truflar okkur ekkert,“ segir Víðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×