Fótbolti

Xavi og Cunillera gefa sjúkrahúsi í Barcelona eina milljón evra

Sindri Sverrisson skrifar
Nuria Cunillera og Xavi vilja láta gott af sér leiða.
Nuria Cunillera og Xavi vilja láta gott af sér leiða. VÍSIR/EPA

Kollegi Heimis Hallgrímssonar í úrvalsdeildinni í Katar, Barcelona-goðsögnin Xavi, og eiginkona hans Núria Cunillera hafa ákveðið að styðja myndarlega við sjúkrahús í Barcelona.

Xavi hóf glæstan knattspyrnuferil sinn með Barcelona og lék með liðinu nær allan sinn feril eða þar til að hann gekk í raðir Al Sadd í Katar árið 2015. Hann þjálfar nú liðið.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Spánverja afar grátt og vildu Xavi og Cunillera, sem er fjölmiðlakona, leggja sitt að mörkum til að styðja við heilbrigðiskerfið í sinni gömlu heimaborg. Þau hafa því gefið sjúkrahúsinu Clínic 1 milljón evra, jafnvirði 156 milljóna króna.

Í myndskeiði sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum segja hjónin að féð verði nýtt til kaupa á sótthreinsibúnaði fyrir starfsfólk sjúkrahússins og sjúklinga.

Áður höfðu fleiri fyrrverandi eða núverandi Barcelona-menn styrkt við sjúkrahúsið, þeir Lionel Messi og bræðurnir Thiago og Rafinha Alcantara. Þá hefur þjálfarinn Pep Guardiola lagt sitt að mörkum fyrir sína gömlu heimaborg en hann gaf 1 milljón evra til læknaskóla í Barcelona og í Angel Soler Daniel sjóðinn.

Í dag höfðu 11.744 manneskjur látist af völdum kórónuveirunnar á Spáni en aðeins á Ítalíu hafa fleiri látist. Þá hafa 124.736 manns greinst með veiruna, þar á meðal Jordi Cardoner varaforseti Barcelona en hann er í heimasóttkví og þarf ekki á læknismeðferð að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×