Enski boltinn

Keane svekktur á slúðrinu

Robbie Keane skoraði fallegt mark gegn Arsenal um helgina
Robbie Keane skoraði fallegt mark gegn Arsenal um helgina NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Robbie Keane viðurkennir að hann sé orðinn mjög þreyttur á því að fólk sé að slúðra um framtíð hans hjá Liverpool.

Keane hefur verið gagnrýndur mikið í vetur síðan hann var keyptur á stórfé frá Tottenham, en hlaut uppreisn æru í gær þegar hann skoraði jöfnunarmark Liverpool gegn Arsenal á Emirates.

Mikið hefur verið slúðrað um Keane að undanförnu og blöðin hafa gengið svo langt að ætla að hann verði seldur frá Liverpool í janúar.

Í síðustu viku greindu blöðin frá meintu spjalli fyrirliðans Steven Gerrard og Mark Lawrenson fyrrum leikmanns liðsins, þar sem þeir eiga að hafa rætt að framtíð Keane væri upp í loft hjá félaginu.

Þetta var að hluta dregið til baka en Keane hefur fengið nóg.

"Ég er ekki svekktur yfir því að uppi séu vangaveltur um framtíð mína hjá félaginu. Það eina sem fer í taugarnar á mér er þegar fólk utan félagsins er að slúðra um hluti sem hafa með mig að gera, því þar er fólk að tala um eitthvað sem það hefur ekki hundsvit á," sagði Keane og er segir gagnrýnendum sínum að bíða hægum.

"Ég hef alltaf sagt að ég muni skora mörk fyrir þetta lið, en ég vil helst vera dæmdur í lok tímabils - ekki í desember," sagði Írinn marksækni.

Hann viðurkenndi að það hefði verið ljúft að skora á móti Arsenal, enda hafði hann spilað með erkifjendum liðsins í Tottenham síðustu ár.

"Það er alltaf gott að skora á móti Arsenal, sérstaklega í ljósi þess að áhorfendurnir voru búnir að vera að bauna á mig áður en ég skoraði. Maður mátti svo sem eiga von á því, hafandi spilað fyrir Tottenham, en það var því þeim mun sætara að setja mark á þá."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×