Innlent

Sara Elísa­bet næsti sveitar­stjóri á Vopna­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Sara Elísabet hefur sinnt störfum sveitarstjóra eftir að Þór Steinarson gerði samning um starfslok fyrr á árinu.
Sara Elísabet hefur sinnt störfum sveitarstjóra eftir að Þór Steinarson gerði samning um starfslok fyrr á árinu. Vopnafjarðarhreppur/Vísir/Vilhelm

Hreppsráð Vopnafjarðarhrepps hefur lagt til við sveitarstjórn að ráða Söru Elísabetu Svansdóttur í starf sveitarstjóra út kjörtímabilið.

Frá þessu segir í fundargerð hreppsráðs frá í síðustu viku. Þar segir enn fremur að Söru Elísabetu sé jafnframt veitt leyfi frá störfum skrifstofustjóra á meðan á tímabundinni ráðningu hennar sem sveitarstjóra stendur yfir frá 20.maí 2020 og til loka yfirstandandi kjörtímabils. Er tillagan samþykkt samhljóða.

Sara Elísabet var ráðin sem skrifstofustjóri hjá sveitarfélaginu í ágúst á síðasta ári og hefur sinnt störfum sveitarstjóra eftir að Þór Steinarsson gerði samkomulag við sveitarstjórnina um að hann léti af störfum í febrúar.

Í frétt Austurfréttar segir að Sara Elísabet sé 38 ára gömul, alin upp í Reykjavík, og hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og síðar M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá skólanum.

„Áður en hún fluttist austur starfaði hún í þrjú ár sem sérfræðingur í gæðamálum hjá bílaumboðinu Öskju. Þar á undan var hún markaðsstjóri hjá Saga Medica og starfaði í markaðsdeild Icelandair. Áður vann hún í tíu ár hjá Actavis, síðast sem sérfræðingur í hráefnateymi,“ segir í frétt Austurfréttar.

Uppfært 19:04 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Þór Steinarssyni hefði verið sagt upp störfum hjá Vopnafjarðarhreppi. Í athugasemd sem hann sendi Vísi segir Þórir að hann hafi samið um starfslok en ekki verið sagt upp störfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×