Menning

Heima­helgi­stund í Húsa­víkur­kirkju

Tinni Sveinsson skrifar

Í dag klukkan 17 verður heimahelgistund streymt heim til landsmanna frá Húsavíkurkirkju.

Eins og svo margt annað hefur messuhald og fermingar í Þjóðkirkjunni fallið niður síðustu mánuði. Á meðan á þessu stendur hefur kirkjan komið til heimila þess fólks sem getur ekki heimsótt hana og hefur meðal annars verið hægt að fylgjast með í beinni útsendingu hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir.

Formið á helgistundunum svipar til messu, með hugvekju, bæn og tónlist, en er þó knappara, eða 25 til 30 mínútur.

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir leiðir helgistundina. Félagar úr Kór Húsavíkurkirkju syngja og Ilona Laido organisti spilar. Flutt verða lögin Ó, Guð ég veit hvað ég vil, Mamma mín og Í bljúgri bæn.

„Meðan samkomubann ríkir viljum við færa þjóðkirkjuna og hennar starf heim í stofu. Fólk getur átt þá hugleiðslu, bæn og kyrrð sem það annars myndi eiga í kirkjunni, heima hjá sér. Kirkjan hefur miklar skyldur gagnvart þjóðinni og þetta er ein leiðin til þess að uppfylla þær,“ segir Pétur G. Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu.

Sex kirkjur hafa þegar riðið á vaðið og eru það Hallgrímskirkja, Bessastaðakirkja, Laugarneskirkja, Lindakirkja, Vídalínskirkja og Ólafsfjarðarkirkja.

Helgihald í kirkjum mun hefjast aftur næstu helgi, eða þann 17. maí.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×