Innlent

Minnast hjónanna sem létust: „Sorg ríkir í bænum okkar“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sorg ríkir nú í Hveragerði eftir að hjón sem voru þar búsett létust úr Covid-19.
Sorg ríkir nú í Hveragerði eftir að hjón sem voru þar búsett létust úr Covid-19.

Hjónin sem létust af völdum Covid-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur voru búsett í Hveragerði. Konan lést í síðustu viku og maðurinn í fyrrinótt. Bæjarráð Hveragerðisbæjar birti á heimasíðu sinni í gær samúðarkveðjur frá bæjarstjórn. 

Í bókun bæjarráðs eru innilegar samúðarkveðjur færðar þeim sem eiga um sárt að binda. Þar segir að stórt skarð hafi verið höggvið í Hveragerði vegna yfirstandandi kóronuveirufaraldurs og að sorg ríki í bænum.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri minntist hjónanna á Facebook í gær. 

„Við minnumst skemmtilegra hjóna, góðra vina, sem kvöddu svo alltof snemma. Hugur okkar er hjá sonum þeirra þremur, fjölskyldum þeirra, systkinum og öðrum ættingjum og vinum. Í kvöld kl. 20 kveikjum við á kerti úti í garði og minnumst þeirra um leið og við sendum innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra sem hafið misst svo mikið.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, systir Aldísar og framkvæmdastjóri Kjöríss í Hveragerði, segir höggin þung sem dynji á bænum. Hjónin hafi unnið í Kjörís um árabil og því samofin sögu fyrirtækisins.

„Margar minningar streyma fram og sér maður þau svo ljóslifandi fyrir sér,“ segir Guðrún.

„Aðstæðurnar núna gera okkur öllum erfitt fyrir. Það er sárt að geta ekki hist og sameinast í sorginni. Því verða samfélagsmiðlar að duga. Ástandið er dauðans alvara! Verum heima, virðum samkomubönnin, gætum hreinlætis!“

Á upplýsingafundi Almannavarna í gær kom fram að fjórir hefðu nú látist af völdum veirunnar á Íslandi. Staðfest smit hér á landi eru nú 1.319. Fjörutíu og fjórir liggja inni á spítala og þar af eru 12 á gjörgæslu. Nýjar upplýsingar um fjölda smita og stöðuna á Landspítala munu berast klukkan eitt í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×