Innlent

Mörgum börnum líður illa vegna faraldurs og verkfalla

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Ellefu samtöl við börn tengd sjálfsvígum voru hjá Hjálparsíma Rauða krossins 1717 í apríl. Verkefnastjóri Hjálparsímans segir mikið óvissuástand undanfarið hafa haft áhrif á mörg börn sem líði illa.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 hefur verið starfræktur um árabil en þangað geta þeir leitað sem þurfa á sálrænum stuðningi eða ráðgjöf að halda. Símtölum og netspjöllum þangað hefur fjölgað verulega frá því í fyrra en á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru samtölin nærri ellefu þúsund. Þau voru fimm þúsund í fyrra.

„Það eru samtöl tengd kvíða mikið og ofbeldissamtöl þeim hefur fjölgað gríðarlega mikið síðustu vikur og svo einmanaleikinn líka hann hefur gríðarleg áhrif í svona ástandi,“ segir Sandra Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins.

Þannig voru samtöl tengd ofbeldi nærri tvöfalt fleiri í apríl en á sama tíma í fyrra. Þá fjölgaði samtölum vegna sjálfsvíga einnig í apríl en ellefu af þeim samtölum voru við börn. Sandra segir börnin oftast hafa verið á aldrinum fjórtán til átján ára. Hún segir undanfarnar vikur hafa reynt á mörg börn.

Sandra Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins.Vísir/Stöð 2

„Náttúrulega fyrst og fremst þessi veirufaraldur og verkföll. Þetta hefur allt saman áhrif á börnin. Við finnum fyrir því að þeim líður oft bara illa yfir þessu óvissuástandi. Mæta ekki í skólann og oft bara kannski erfitt ástand heima við. Geta ekki hitt vini sína og margt svona þannig það er þyngra hljóð í börnum.“

Þá segir Sandra að nú í maí hafi samtölum fækkað aðeins aftur en álagið sé enn mikið. 

„Þau eru svona þyngri og erfiðari mál sem við erum að fá til okkar. Það er mikil vanlíðan hjá fólki. Við búumst alveg við því að þetta muni haldast áfram.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.