Innlent

Tryggja ekki heimalagnir fólks

Nokkuð algengt er að fólk verði fyrir verulegu tjóni af völdum vatns ef heimlögn að híbýlum þess bilar eða fer í sundur. Það sem kemur hins vegar á óvart er að tjónþolar geta ekki tryggt sig fyrir slíku hjá tryggingafélögum sínum, þótt þeir eigi og beri ábyrgð á þessum lögnum. Orkuveitan stendur nú í umfangsmiklum framkvæmdum til að endurnýja heimlagnir í borginni, enda eru þær komnar á tíma og geta gefið sig hvenær sem er. Íbúi í Goðalandi í Reykjavík hafði samband við blaðið og sagði farir sínar ekki sléttar. Orkuveitan var að skipta um inntak hjá honum, þegar heimlögnin brast. Vatn flæddi inn og um allt þannig að mikið tjón hlaust af. Íbúinn hringdi í nokkur tryggingafélög en ekkert þeirra kvaðst myndu tryggja fyrir slíku tjóni. Íbúinn sat því uppi með tjónið en benti jafnframt á að gömlu heimlagnirnar væru í raun "tímasprengja" sem fólk sæti á, þar til Orkuveitan myndi knýja dyra til að skipta um lagnir sem hún gerði ekki eftir pöntun heldur samkvæmt eigin áætlun. Jón Óskarsson hjá Orkuveitunni sagði að kerfisbundið væri unnið að endurnýjun heimlagna og vatnsinntaka í hverfum borgarinnar. Hann sagði að samkvæmt gildandi reglum ættu húseigendur heimlagnir út í götu sem lagðar hefðu verið fyrir 1992 og bæru ábyrgð á þeim þar til búið væri að skipta um þær. Endurnýjun væri á kostnað Orkuveitunnar sem eignaðist þá heimlagnirnar og inntökin. "Ég býst við að það séu einhverjar þúsundir heimlagna sem orðið er aðkallandi að endurnýja," sagði Jón og bætti við að líftími þeirra færi nokkuð eftir því hvernig hefði verið staðið að lagningu þeirra. "Heimlagnafjöldinn nemur tugum þúsunda alls og á ári eru 500 - 700 endurnýjaðar. Oftast eru þetta þannig bilanir að þær valda ekki stórtjóni. Þó getur komið fyrir að þær valdi miklu flóði. Það er of mikið um að við séum kallaðir til vegna vatnsflóða hjá fólki af völdum heimlagna en það er þó ekkert sem er daglegt." "Við förum aldrei út fyrir útveggi fasteignar með tryggingar," sagði Lúðvík Birgisson hjá Tryggingamiðstöðinni. "Það er algilt hjá öllum tryggingafélögum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×