„Við munum fylgja áætlun sem eru 130 dagar þar sem við tölum við jafnaðarmenn um allt land sem berjast fyrir bættum kjörum eins og við,“ segir Oddný G. Harðardóttir, sem í gær náði kjöri sem formaður Samfylkingarinnar.
Oddný hlaut 59,9 prósent atkvæða af þeim 3.787 atkvæðum sem greidd voru í prófkjörinu. Hún tekur við embættinu af Árna Páli Árnasyni sem gegnt hefur því frá árinu 2013.
Magnús Orri Schram hafnaði í öðru sæti í kjörinu, Helgi Hjörvar í því þriðja og Guðmundur Ari Sigurjónsson í fjórða.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur dalað mikið undanfarin ár. Í nýjustu skoðanakönnun Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna, sem birt var á fimmtudag, var Samfylkingin mæld með 7,7 prósenta fylgi.
Árni Páll sagði í setningarræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar að rekja mætti vanda flokksins til aðstæðna bæði innan lands og utan. Flokkurinn væri fórnarlamb eigin velgengni. Árni Páll kvaðst þakklátur fyrir sína formannstíð.
„Ég hef frá hruni, í nærri átta ár, varið flestum vökustundum í glímuna við stærstu spurningar samtímans, vegna þess að þið settuð mig til þeirra verka,“ sagði Árni Páll sem setið hefur á þingi í tæp níu ár.
Oddný kveðst bjartsýn fyrir hönd flokksins og segir landsfundinn ákveðinn vendipunkt fyrir hann.
„Flokkurinn er að fara í gegnum málefni sín og skerpa á áherslum. Við endurnýjum ekki bara formann og varaformann heldur kemur líka nýtt fólk bæði í stjórn og framkvæmdastjórn,“ segir hún.
Að sögn Oddnýjar mun vinnan við það að byggja upp flokkinn hefjast strax á mánudag.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní.
Oddný boðar 130 daga plan
Þórdís Valsdóttir skrifar
