Innlent

Rótleysið getur valdið kvíða og vanlíðan meðal barnanna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Kristrún Helga Ólafsdóttir félagsráðgjafi í Salaskóla segir verkfallið bitna illa á mörgum nemendum.
Kristrún Helga Ólafsdóttir félagsráðgjafi í Salaskóla segir verkfallið bitna illa á mörgum nemendum. Vísir/Egill

Samninganefndir Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga komu saman til fundar í Karphúsinu fyrir stundu en verkfall Eflingar í Kópavogi og fleiri sveitarfélögum hefur nú staðið í rúma tvo sólarhringa. Félagsráðgjafi í Kópavogi óttast áhrif verkfallsins á skólabörn.

Ríflega tvö þúsund börn eru í fjórum grunnskólum í Kópavogi sem verkfallsaðgerðir Eflingar hafa mikil áhrif á. Skólarnir fjórir eru Salaskóli, Álfhólsskóli, Kópavogsskóli og Kársnesskóli. Í þessum fjórum skólum er skólastarf verulega skert.

„Við starfsfólk í Salaskóla höfum verulegar áhyggjur af áhrifum þessa verkfalls á marga nemendur. Meðal annars hóp jaðarsettar barna sem að treysta á starfsfólk skólans og að geta mætt í skólann,“ segir Kristrún Helga Ólafsdóttir félagsráðgjafi í Salaskóla. Hún segir rótleysið geta valdið kvíða og vanlíðan meðal barnanna.

Vonar að kjaradeilan fari að leysast

Elísabet Pétursdóttir, náms- og starfsráðgjafi í Kópavogsskóla, segir börnin sakna skólans.Vísir/Egill

„Auðvitað sakna þau skólans og þau sakna félaganna og þau sakna rútínunnar,“ segir Elísabet Pétursdóttir náms- og starfsráðgjafi í Kópavogsskóla.

Samninganefndir Eflingar og sveitarfélaganna hittust undir kvöld á fundi í Karphúsinu en Elísabet vonar að deilan leysist sem fyrst og börnin komist aftur í skólann.

„Það er langt sumarfrí fram undan og þau eru náttúrlega aðeins farin að trosna úr sumum félagslegum tengslum. Þau eru ekki að hitta vini sína. Þannig að ég myndi að sjálfsögðu vilja fá þau aftur í skólann sem fyrst.“


Tengdar fréttir

Boðað til fundar í Eflingarverkalli

Samninganefndir Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Eflingar hafa verið boðaðar til fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara klukkan 18 í dag. Síðast var fundað í deilunni á mánudaginn.

„Við ætlum ekki að gefa neitt eftir“

Skólahald lá niðri eða var skert í nokkrum leik- og grunnskólum í Kópavogi í dag vegna verkfalls Eflingar. Ekki var fundað í deilunni í dag og enginn fundur hefur verið boðaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×