Innlent

Breki telur Strætó nota Covid-19 sem skálkaskjól

Jakob Bjarnar skrifar
Strætó virðir Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna ekki svars.
Strætó virðir Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna ekki svars.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, telur stjórnendur Strætó, nota farsóttarvarnir sem skálkaskjól til hagræðingar. Hann segir að sú sé eina ályktunin sem draga megi í kjölfar eftirgrennslana samtakanna vegna ábendinga félagsmanna. Samtökin hafa óskað svara við því hvers vegna Strætó hefur skert þjónustu, nú í sex vikur og hefur einungis ekið eftir laugardagsáætlun. Engar tilkynningar hafi verið gefnar út um breytingar á því fyrirkomulagi þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni.

„Jafnframt óskuðu samtökin eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig Strætó muni koma til móts við notendur sína vegna skertrar þjónustu, til dæmis í formi afsláttar, endurgreiðslu eða framlengingar á tímabilskortum.

Engin svör hafa enn borist. Þar til viðhlítandi rök berast er einungis hægt að draga þá ályktun að aðgerðin sé gerð í hagræðingaskyni og farsóttarvarnir sé notuð sem skálkaskjól,“ segir Breki.

Hann bendir á að stjórn samtakanna hafi ályktað annan apríl á þann veg að hin skerta þjónusta Strætó komi „hart niður á notendum, meðal annars þeim sem vinna samfélagslega mikilvæg störf og nýta sér almenningssamgöngur í og úr vinnu. Mætti leiða að því rökum að með fækkun ferða ferðist fleiri með hverjum vagni með aukinni smithættu, þvert á rök Strætó um aðgerðir vegna Covid-19.“

Á síðu samtakanna er birt mynd frá félagsmanni sem Breki telur að sýni svo ekki verður um villst að undanþága Strætó vegna tveggja metra reglunnar sé þanin til hins ýtrasta.

„Félagsmaðurinn taldi a.m.k. 33 farþega, en Strætó er einungis heimilt að ferðast með 30 manns. Vandinn kristallast í því að skortur er á vögnum þar sem mun færri mega ferðast með hverjum og einum þeirra en áður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×