Innlent

Kindur og nýfædd lömb drápust í eldsvoða á Suðurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Vík í Mýrdal en eldsvoðinn kom upp á bæ í hreppnum. Allt tiltækt slökkvilið í Vík var kallað út vegna eldsins.
Frá Vík í Mýrdal en eldsvoðinn kom upp á bæ í hreppnum. Allt tiltækt slökkvilið í Vík var kallað út vegna eldsins. Vísir/Jói K.

Að minnsta kosti sjö kindur, þar fjögur nýfædd lömb, drápust í eldsvoða sem kom upp á sveitabæ í Mýrdalshreppi á Suðurlandi skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að samkvæmt fyrstu tilkynningu vegna málsins hafi eldur verið í íbúðarhúsi en hann reyndist síðan vera í útihúsum sem standa nálægt íbúðarhúsinu.

„Allt tiltækt lið slökkviliðs og sjúkraflutninga í Vík ásamt slökkviliðinu á Hvolsvelli og Hellu voru send á staðinn. Er lögregla kom á vettvang voru vegfarendur sem leið höfðu átt fram hjá bænum og nágrannar sem höfðu orðið eldsins varir komnir íbúunum til aðstoðar en útihúsin urðu alelda á skömmum tíma. Nú stendur sauðburður sem hæst og voru kindur komnar að burði hýstar í húsunum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Íbúum tókst með aðstoð vegfarenda að bjarga flestum kindunum úr húsunum en að minnsta þrjár kindur og fjögur nýfædd lömb drápust, eins og áður segir.

Í tilkynningu lögreglu segir að slökkvistarf hafi gengið vel. Slökkvistarf tók um 90 mínútur en það gekk fyrst út á að verja íbúðarhúsið.

„Slökkvilið þurfti meðal annars að sækja vatn á tankbíla töluvert frá bænum. Lögregla vill þakka viðbragðsaðilum fyrir snögg viðbrögð og sérstaklega þeim vegfarendum sem komu fyrstir að og aðstoðuðu við björgun sauðfjárins.

Slökkvilið Víkur hafði vakt við útihúsin fram á nótt í öryggisskyni. Þá eru eldsupptök ókunn en rannsókn stendur yfir,“ segir í tilkynningu lögreglu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.