Innlent

Alræmdir hrottar í haldi vegna andláts

Hinn látni hafði aðeins verið í fangelsi í einn dag þegar hann lést.
Hinn látni hafði aðeins verið í fangelsi í einn dag þegar hann lést. Fréttablaðið/stefán
Annþór Karlsson og Börkur Birgisson færðir af almennri deild á Litla-Hrauni í einangrun. Taldir hafa veitt samfanga sínum áverka sem drógu hann til dauða.

Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson, þekktir handrukkarar og ofbeldismenn, voru síðdegis í gær færðir af almennri deild á Litla-Hrauni í einangrun, grunaðir um að hafa veitt samfanga sínum áverka fyrir helgi sem drógu hann til dauða.

Sigurður Hólm Sigurðsson, 49 ára síbrotamaður, kallaði eftir aðstoð í klefa sinn á fimmtudaginn og var þá í andnauð. Hann lést skömmu síðar og endurlífgunartilraunir báru engan árangur. Engir ytri áverkar voru á líki hans og ekkert benti til þess að honum hefði verið ráðinn bani.

Líkið var engu að síður sent í krufningu og bráðabirgðaniðurstaða úr henni barst í gær. Niðurstaðan er sú að Sigurður lést af völdum innvortis blæðinga og að áverkarnir benda eindregið til þess að hann hafi orðið fyrir árás.

Um leið og þetta varð ljóst í gær var kannað hverja Sigurður hafði umgengist áður en hann lést. Hann hafði þá einungis verið á Litla-Hrauni í einn dag í síbrotagæslu. Í kjölfarið voru Annþór og Börkur færðir í einangrun. Ekki liggur fyrir hvers konar barsmíðum Sigurður varð fyrir eða af hvaða tilefni. Lögreglan á Selfossi varðist allra frétta í gær og hafði þá ekki yfirheyrt tvímenningana.

Annþór og Börkur hafa setið inni síðan um miðjan mars, þegar þeir voru handteknir í umfangsmikilli lögreglurassíu. Sú rannsókn beindist að alvarlegum líkamsárásum og fleiri brotum, sem öll voru talin liður í uppgjöri í undirheimunum. Þeir hafa nú verið ákærðir fyrir að hafa í þrígang ráðist á fólk í heimahúsum og barið það með kylfum, handlóðum og öðrum bareflum þannig að einn hlaut opið beinbrot á sköflungi og hnéskel, annar handleggsbrotnaði og sá þriðji ökklabrotnaði.

Annþór og Börkur sættu gæsluvarðhaldi fyrst um sinn en voru síðan látnir halda áfram afplánun eldri dóma; sjö og hálfs árs fangelsisdóms sem Börkur hlaut fyrir hrottafengna tilraun til manndráps með öxi og fjögurra ára fangelsisdóms sem Annþór hlaut fyrir innflutning á fíkniefnum.- sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×