Lífið

Ricky Ger­vais og J.K Rowling sökuð um trans­fóbíu

Sylvía Hall skrifar
Netverjar eru ekki sáttir við þetta tvíeyki.
Netverjar eru ekki sáttir við þetta tvíeyki. Vísir/Getty

Ricky Gervais hefur staðið í ströngu við að afsaka röð tísta hann sendi frá sér í gær. Margir fylgjendur grínistans hafa sakað hann um fyrirlitningu í garð transfólks en hann segir að tístin hafi einungis verið grín.

Tístin tengjast öðru máli sem hefur verið fyrirferðarmikið í netheimum undanfarna daga og tengdist J.K. Rowling, rithöfundi Harry Potter-bókanna vinsælu. Rowling hafði lýst yfir stuðningi við rannsóknarkonuna Mayu Forstater sem missti starf sitt eftir að hún sagði á Twitter-síðu sinni að transkonur gætu ekki breytt líffræðilegu kyni sínu.

Mál Forstater fór fyrir dómstóla og var það niðurstaða dómara að sú skoðun hennar að tala um manneskju eftir því kyni sem henni var úthlutað við fæðingu, óháð því hvort það væri niðurlægjandi, ógnandi eða fjandsamlegt, væri ekki virðingarinnar virði í lýðræðislegu samfélagi.

J.K Rowling kom Mayu til varnar og sagðist standa með henni. Það væri óásættanlegt að hún hefði misst vinnuna fyrir það að fullyrða að kyn væri raunverulegt.

Við þetta reiddust margir fylgjendur Rowling mjög og sökuðu hana um fyrirlitningu í garð transfólks. Þá lýstu margir yfir vonbrigðum með afstöðu hennar og sögðu hana ekki hafa skilning á málefnum transfólks almennt.

Gervais blandaði sér óvænt inn í deiluna í gær eftir að hann svaraði tísti frá grínaðganginum Jarvis Dupont sem deildi grein Spectator. Í greininni var gert lítið úr þeim sem gagnrýndu Rowling fyrir ummælin og virtist Gervais taka undir þau sjónarmið.

„Þessar hræðilegu líffræðilegu konur geta aldrei skilið hvernig það hlýtur að vera fyrir þig að verða glæsileg kona svo seint í lífinu. Þær taka kvenkyns forréttindum sínum sem gefnum hlut. Sigra í kvennaíþróttum og eiga sín eigin klósett. Nóg er nóg.“

Einn fylgjandi Gervais svaraði tísti hans með því að minna hann á að „góðmennska væru töfrar“ og tók hann undir það og sagði þess vegna vera mikilvægt að vernda réttindi kvenna en ekki eyða þeim vegna þess að „einhverjir karlmenn hafi fundið nýja lúmska leið til þess að drottna yfir og djölfavæða heilt kyn“.

Eftir að gagnrýnin fór að aukast sagði Gervais að um grín væri að ræða. Þegar einn notandi benti honum á að slíkt grín væri skaðlegt sagðist hann gera grín að ýmsum skaðlegum hlutum, þó grínið væri ekki það sem væri skaðlegt við þá.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.