Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Jónas Haraldsson, lögmaður, hefði sent kvörtun til Heimsminjaskrár. Hann sagði að umsvif og ágangur köfunarfyrirtækja væru algjört hneyksli, eins og hann kemst sjálfur að orði. Forstjóri heimsminjaskrifstofunnar sendi í kjölfarið íslenskum stjórnvöldum bréf og óskaði eftir skýringum. Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, segir um eðlilegt ferli að ræða.

Stjórnvöld munu í samvinnu við þjóðgarðsvörð vinna að því að svara fyrirspurn skrifstofunnar.
„Okkar viðbrögð eru einfaldlega þau að útskýra fyrir UNESCO að atvinnustarfsemi er auðvitað ákveðin í Þingvallaþjóðgarði af til þess bærum aðilum. Það er nýbúið að móta atvinnustefnu, og það er alls konar atvinnustarfsemi í þjóðgörðum almennt séð; þjónusta, afþreying og svo framvegis og þessi tiltekna afþreying, það er að segja köfunin í Silfru, teljum við rúmast innan þess sem er ásættanlegt í þjóðgarðinum.“

„Ef ég hefði haft áhyggjur af því þá hefði ég náttúrulega beitt mér gegn þessu í þá tíð sem ég hef verið í forsvari, og svo sem bara áður líka því ég hef haft skoðanir á náttúruvernd í áratugi,“ segir Ari Trausti.
„Þetta er auðvitað bara spursmál hvernig að þessu er staðið. Við höfum fengið mjög færa sérfræðinga til að vinna fyrir okkur þolmarkagreiningu varðandi fjölda og aðgengi og stýringu og mótvægisaðgerðir varðandi umhverfisálagið og þau plögg benda til þess að þetta sé í lagi svo framarlega sem farið er eftir þeim leiðbeiningum og þeim mótvægisaðgerðum sem verða hafðar uppi. Við erum með þetta í vöktun. Við förum eftir þessari áætlun og svo verður fylgst með því mjög nákvæmlega næstu árin hvernig þessu vindur fram.“
Hann segir að köfunin í Silfru sé afar merkileg upplifun.
„Silfra er merkileg, þessi upplifun sem fólk fær þarna er eins og við getum hugsað okkur upplifanir gesta í öðrum þjóðgörðum; flúðasiglingar eða hvað eina. Við teljum þetta og höfum alltaf talið þetta vera ásættanlegt.“
Hvað gerist næst?
„Þetta er jú einstaklingur, það er ekki eins og það hafi komið fullt af kvörtunum. Þetta er einstaklingur sem er þarna að kvarta. Þessu verður svarað formlega,þ að getur dálítinn tíma til að gera þetta vel og vandlega og síðan sjáum við hvað gerist,“ segir Ari Trausti.