Innlent

Nýr Þing­valla­vegur opnaður í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum.
Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum. Vegagerðin
Þingvallavegur verður opnaður formlega klukkan 14 í dag eftir endurbætur sem staðið hafa frá júní 2018. Kaflinn sem um ræðir er frá þjónustumiðstöðinni og að tengingu við Vallaveg.Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að samhliða því að endurbættur Þingvallavegur verður opnaður er Vallavegur gerður að botnlanga. Verður einungis hægt að fara inn á Vallaveg í norðurenda vegarins, við Silfru.Að sögn Vegagerðarinnar var áætlaður heildarkostnaður verksins 767 milljónir króna. Endanlegu uppgjöri verksins sé hins vegar ekki lokið en búast megi við auknum kostnaði sér í lagi vegna endurbóta á hjáleiðinni um Vallaveg.Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum. „Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250 % aukning. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, munu klippa á borða við bílastæði um 5 km austan við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Að athöfninni lokinni verður haldið málþing í Hakinu um tilurð og þýðingu vegarins.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.