Innlent

Skýri köfunina í Silfru fyrir UNESCO

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jónas Haraldsson lögmaður.
Jónas Haraldsson lögmaður. Fréttablaðið/Ernir
„Þetta er algjört hneyksli,“ segir Jónas Haraldsson lögmaður um stöðu mála við Silfru á Þingvöllum.

Jónas gagnrýnir harðlega umsvif og ágang köfunarfyrirtækja við gjána Silfru í miðjum Þingvallaþjóðgarði sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Eftir samskipti við formann Þingvallanefndar, fyrrverandi þjóðgarðsvörð, sendi Jónas kvörtun til Heimsminjaskrárinnar.

Mechtild Rössler, forstjóri Heimsminjaskrifstofunnar, sendi síðan í september íslenskum stjórnvöldum bréf með óskum um skýringar.

Mechtild Rössler, forstjóri Heimsminjaskrifstofunnar.
„Mig langar að biðja þau yfirvöld sem ábyrg eru í málinu að útvega Heimsminjaskrifstofunni upplýsingar um þetta mál við fyrsta tækifæri,“ segir í bréfi Rössler sem lagt var fram á fundi Þingvallanefndar 25. september síðastliðinn. Þar var ákveðið að fela þjóðgarðsverði að vinna drög að svörum til Heimsminjaskrifstofunnar.

Rakið er í kvörtun Jónasar hversu umfangsmikil starfsemi köfunarfyrirtækjanna sé með salernum, stálpalli, bílaflota og alls kyns búnaði sem skapi sjónmengun fyrir aðra gesti þjóðgarðsins og álag á lífríki Silfru sem hafi látið stórlega á sjá. Vísar hann í því sambandi til rannsóknar sem gerð hafi verið árin 2014 og 2015.

„Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa algjörlega verið hunsaðar af stjórn þjóðgarðsins því þetta myndi þýða bann á alla köfun í gjánni Silfru sem valda myndi þjóðgarðinum tekjutapi,“ skrifar Jónas til Unesco.

Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar.Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Vegna anna hjá Ara Trausta Guðmundssyni, formanni Þingvallanefndar, náðist ekki tal af honum við vinnslu þessarar fréttar í gær. Ari útskýrði hins vegar afstöðu sína í tölvupósti til Jónasar um miðjan ágúst.

„Við erum ósammála um hvort leyfa skuli virknina við og í Silfru og þar með líka um hvort að hún ógni veru þjóðgarðsins á Heimsminjaskránni eður ei. Lít á hana sem nægilega örugga eftir úttekt og sérfræðivinnu EFLU, endurbætur (sem skila sér í skrefum) og þolmarkagreiningu plús eftirlit með framkvæmdum næstu ára og áhrifum virkninnar,“ skrifar Ari til Jónasar.

Kveðst Ari líta á starfsemina í Silfru „sem einstæða náttúruupplifun sem megi leyfa á þennan hátt – ekki ósvipað og heimsóknir í Raufarhólshelli eftir aðgerðir þar, Þríhnúkahelli, Vatnshelli á Snæfellsnesi, ísgöngin í Langjökli og raunar margt fleira hér á landi – á friðuðum eða ófriðuðum landsvæðum. Allt svo lengi sem ákvörðuðum takmörkunum á ýmsum stigum aðgengis og framkvæmda er haldið innan sjálfbærra marka,“ segir í pósti Ara.

„Við Ari tölum bara í kross; ég tala um náttúruverndarsjónarmið og hann um bissness,“ segir Jónas við Fréttablaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×