Innlent

Byggðaráð Skagafjarðar leggst gegn stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Sauðárkróki, höfuðstað Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Frá Sauðárkróki, höfuðstað Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Vísir/Pjetur
„Við leggjumst gegn þessu í þessari mynd sem það er. Íbúar þessara svæða hafa aldrei verið spurðir hvort þeir vilji fá þetta,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs Skagafjarðar, í tilefni af bókun, sem samþykkt var í gær, þar sem lýst er verulegri andstöðu við áform ríkisstjórnarinnar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. 

„Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að færa hluta skipulagsvalds sveitarfélaganna yfir til stjórnunar- og verndaráætlana sem binda hendur sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu innviða og vernd og nýtingu á umræddum svæðum. Með öðrum orðum er verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna,“ segir í bókun Skagfirðinga, sem send var Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs Skagafjarðar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Byggðaráðið bendir á að stærstur hluti þess svæðis, sem lagt sé til að falli undir þjóðgarð, sé afréttareign í þjóðlendu. 

„Í því felast meðal annars mikilvægir hagsmunir fyrir atvinnustarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði og getur kallað á ýmis konar breytingar varðandi umferð, girðingar, nýtingu afréttareignar innan þjóðgarðs og aðra þætti sem tengist valdheimildum sveitarfélagsins.“ 

Þá taki tillaga um afmörkun þjóðgarðsins ekki mið af aðalskipulagi sveitarfélaga. 

„Mörk þjóðgarðs virðast fyrst og fremst eiga að ráðast af eignarhaldi eða ráðstöfunarrétti ríkisins á landi, það er þjóðlendum, en ekki sjálfstæðu mati á þörf fyrir friðun einstakra landsvæða á faglegum forsendum þar sem tekið er ríkt tillit til fjölmargra hagaðila sem þyrftu að koma að málinu."

Frá Varmahlíð í Skagafirði.Vísir/Vilhelm.
„Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar gerir verulega fyrirvara við að afmörkun miðhálendisþjóðgarðs verði innan sveitarfélagsins að svo stöddu og miðað við þær forsendur sem byggt er á í fyrirliggjandi tillögu. Allar tillögur í þeim efnum þurfa að byggjast á hagsmunum og aðkomu heimaaðila á hverju svæði fyrir sig. 

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar áréttar jafnframt fyrri kröfu sína um að teknar verði saman upplýsingar um stöðu annarra þjóðgarða, rekstrargrundvöll þeirra og hvernig mat heimamanna á hverjum stað fyrir sig er á að til hafi tekist, áður en lengra er haldið áfram með undirbúning þjóðgarðs á miðhálendinu,“ segir meðal annars í bókun Sveitarfélagsins Skagafjarðar.


Tengdar fréttir

Telja Þjóðgarðastofnun skerða rétt sinn

Á fjórða tug athugasemda bárust við drög að frumvarpi um stofnun Þjóðgarðastofnunar. Í drögunum eru þjóðgarðar og stjórnsýsla þeirra sameinuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×