Flugvél Icelandair sem verið var að fljúga til Boston var snúið við skömmu eftir flugtak í kvöld. Var það gert vegna bilunar í búnaði sem stýrir þrýstingi í flugvélinni og var ekki hætta á ferðum.
Á Facebook-síðu Flugbloggs segir að þrýstingsfall hafi orðið í farþegarými flugvélarinnar og því hafi henni verið snúið við. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir það ekki rétt. Þrýstingur hafi ekki fallið, hætta hafi ekki verið á ferð og að ekki hafi verið um neyðarlendingu að ræða.
Lítilsháttar bilun hafi komið upp og búið sé að laga hana. Flugvélin á að vera að fara í loftið aftur, þegar þetta er skrifað.
Eins og áður segir kom bilun upp í búnaði sem stýrir þrýstingi í flugvélinni. Hún var þó ekki komin í nægilega hæð svo þörf væri á þessum búnaði. Samkvæmt verklagi og öryggisreglum hafi flugvélinni verið snúið við.
Flugvél Icelandair snúið við skömmu eftir flugtak vegna bilunar
