Innlent

Svona eru veðurhorfur framundan á landinu

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Sauðárkrókur minnir á draugabæ á þessari mynd.
Sauðárkrókur minnir á draugabæ á þessari mynd. Vísir/JóiK

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir hámarki náð hvað verður varðar ef frá er talið Suðausturland þar sem von er á miklum vindi á næstu klukkustundum.

„Það er að draga úr vindi um mest allt land. Það eru gular og appelsínugular viðvaranir í gildi um norðan- og austanvert landið. Þær eru að renna út svona klukkan níu eða tíu í kvöld,“ segir Birta Líf.

„En á suðausturlandi erum við með appelsínugula viðvörun vegna vinds sem gildir fram yfir miðnætti. Það er erfitt að eiga við það veður. Það hittir kannski ekki í alla mæla en þegar það hittir þá er það mjög öflugt.“

Von er á miklum vindum á Suðausturlandi. Jafnvel hvassari strengjum en sést hafa í óveðrinu sem nú er í gangi.

Mikil ofankoma hefur verið á Norðurlandi.Vísir/JóiK

„Við búumst við því að á næstu klukkutímum geti verið allt að 30 m/s í strengjum niður af jöklinum. Þessi viðvörun verður áfram í gildi.“

Heilt yfir sé þó að draga úr veðrinu.

„Á morgun verður má segja venjulegt norðanveður með éljum Norðan- og Austanlands,“ segir Birta.

Mikil snjókoma hefur verið á Norðurlandi.

„Það er að draga úr úrkomunni í kvöld en útlit fyrir að verði áfram éljagangur fyrir norðan næstu daga. Það er ekki alveg að stytta upp, bætist kannski frekar í en ekkert í líkingu við síðasta sólarhring.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×