Innlent

„Það er augljóst að þetta verður fúskað í gegn“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. vísir/vilhelm

Stjórnarandstaðan er sökuð um að halda uppi málþófi í gær í umræðu um þjóðkirkjufrumvarp dómsmálaráðherra. Þingfundi var frestað á miðnætti og hafði þá ekki tekist að tæma mælendaskrá. Þingmaður Pírata segir augljóst að koma eigi málinu í gegn með fúski.

Nokkuð er tekist á á bak við tjöldin á Alþingi þessa dagana um dagskrá þingsins þessa síðustu daga fyrir jólafrí. Í gær var framhaldið á Alþingi umræðu um frumvarp dómsmálaráðherra um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og stóð umræðan í nokkrar klukkustundir eða þar til þingfundi var frestað á miðnætti. Samkvæmt heimildum fréttastofu lítur stjórnarmeirihlutinn svo á að með þessu hafi stjórnarandstaðan reynt að tefja á meðan reynt er að semja um dagskrána fyrir jólafrí.

Frumvarpið tengist viðbótarsamningi sem gerður var við kirkjuna sem meðal annars miðar að því að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerir verulegar athugasemdir við frumvarpið, bæði efnislega og hvað varðar málsmeðferðina.

„Málsmeðferðin er algjörlega hábölvanleg og það er algjörlega dæmigert fyrir þetta kirkjujarðasamkomulag og allt sem því viðkemur, að ráðherra fer og talar við kirkjuna og svo er það kirkjuþing en ekki Alþingi sem að samþykkir samninginn fyrst og síðan er þessu hent hérna inn rétt fyrir jól,“ segir Helgi Hrafn. „Það er augljóst að þetta mál fær ekki viðunandi, eða eftir því sem ég fæ best séð, neina umfjöllun í nefnd, alla vegana ekki ef það á að halda starfsáætlun.“

Samkvæmt dagskrá verður umræðu um málið framhaldið nú strax eftir hádegi í dag. „Það er augljóst að þetta verður fúskað í gegn,“ segir Helgi.

Spurður hvort ekki megi líta á langar umræður stjórnarandstöðunnar um málið sem málþóf svarar Helgi:

„Ég get ekki fullyrt um hvað öðrum gengur til, ég tók eina fimmtán mínútna ræðu, aðra fimm mínútna ræðu og fór í andsvör bara eins og þingsköp heimila mér og ég gæti talað um þetta mál miklu miklu meira,“ segir Helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×