Innlent

Yfir 15 stiga hiti í hnjúkaþey fyrir norðan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ekkert sérstaklega vetrarlegt hitakortið í dag.
Það er ekkert sérstaklega vetrarlegt hitakortið í dag. veðurstofa íslands

Lægðir við suðurhluta Grænlands og hæð yfir Írlandi beina til okkar hlýju og röku lofti langt sunnan úr höfum að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Því er loftið hlýtt yfir landinu og gæti hiti náð yfir 15 stig í hnjúkaþey um norðanvert landið.

Annars er í dag útlit fyrir sunnan strekking eða allhvassan vind en í kvöld og nótt má búast við hvassviðri eða stormi í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Þá eru horfur á rigningu eða súld en þurrir kaflar á Norður- og Austurlandi.

Á morgun er því spáð að kröpp smálægð fari yfir landið frá norðri til suðurs. Verður vindáttin lengst af suðlæg og mjög vætusamt.

Undir kvöld snýst vindur svo til vestlægrar áttar á vestanverðu landinu. Þar mun kólna og slyddukennd úrkoma lætur á sér kræla ef að líkum lætur.

Veðurhorfur á landinu:

Gengur í sunnan 10-18 m/s eftir hádegi, en hvassara í vindstrengjum norðanlands í kvöld og nótt. Víða rigning, en úrkomulítið norðaustan til á landinu. Hiti 7 til 16 stig síðdegis, hlýjast fyrir norðan.

Áfram stíf suðlæg átt á morgun og rigning með köflum, talsverð úrkoma sunnan til á landinu eftir hádegi. Vestlægari undir kvöld á vestanverðu landinu með slyddu og kólnar.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt 10-18 m/s og rigning með köflum, talsverð úrkoma sunnan til á landinu síðdegis. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á Austurlandi. Vestlægari um kvöldið á vestanverðu landinu með éljum og kólnar.

Á miðvikudag:
Suðvestan 8-15 með éljagangi, en bjartviðri norðaustan til. Kólnandi, frost 0 til 5 stig seinnipartinn.

Á fimmtudag og föstudag:
Norðlæg átt með snjókomu eða éljum norðanlands, en yfirleitt þurrt og bjart syðra. Frost 1 til 10 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.